Skotgrafahernaður í hvalveiðiráðinu

Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, og Jóhann Guðmundsson, formaður íslensku …
Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, og Jóhann Guðmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Slóveníu. AFP

Aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins eru sögð hafa horfið nær samstundis í hefðbundnar skotgrafir sínar á fundi þess sem nú stendur yfir í Slóveníu. Japanir krefjast þess að bann við hvalveiðum verði afnumið en aðrar þjóðir leggja til griðasvæði hvala í sunnanverðu Atlantshafi..

Í skriflegu opnunarávarpi sínu kröfðust Japanir þess að þrjátíu ára gömlu banni við hvalveiðum í atvinnuskyni yrði aflétt enda segja þeir að rannsóknir ráðsins sjálfs sýni að vissar tegundir hafi þegar náð sér á strik.

Hvalveiðar Japana, sem þeir segja í vísindaskyni, eru eitt helst bitbein aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins. Alþjóðadómstólinn í Haag komst að þeirri niðurstöðu að Japanir væru að misnota undanþáguákvæði um vísindaveiðar árið 2014. Í kjölfarið hættu Japanir veiðunum frá 2014 til 2015 en hófu þær svo aftur. Veiddu þeir yfir 300 hvali.

Nýsjálendingar og Ástralir hafa lagt fram tillögu um að ráðið hafi strangara eftirlit með veiðum í vísindaskyni. Í opnunarávarpi fyrrnefndu þjóðarinnar sagði að Japanir gætu vel náð yfirlýstum vísindamarkmiðum sínum án þess að drepa hvalina.

Japanir setja sig upp á móti tillögu Argentínu, Brasilíu, Gabon, Suður-Afríku og Úrúgvæ um að stofna griðasvæði fyrir hvali í sunnanverðu Atlantshafi. Sú tillaga nýtur stuðnings Evrópusambandsins og fleiri ríkja.

Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að fulltrúar Íslands og Noregs hafi bókað mótmæli gegn banninu við hvalveiðum í atvinnuskyni og haldi slíkum veiðum áfram.

Bannið hefur í ár verið í gildi í þrjátíu ár og er sagt hafa komið í veg fyrir dráp á hundruðum og jafnvel þúsundum hvala. Verndarsinnar segja að hvölunum stafi enn mikil hætta af veiðimönnum, skipum, veiðarfærum og neðansjávarhljóðsjám.

Frá fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Slóveníu.
Frá fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Slóveníu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert