Netárásin var ekki verk erlends ríkis

Síða Twitter var meðal þeirra sem lá niðri netárásinni sl. …
Síða Twitter var meðal þeirra sem lá niðri netárásinni sl. föstudag. AFP

Netárásin sem lamaði fjölda bandarískra vefsíðna í lok síðustu viku var að öllum líkindum ekki verk erlends ríkis. James Clapper, yfirmaður leyniþjónustumála í Bandaríkjunum, sagði í dag enn vera unnið að rannsókn málsins en frumrannsókn benti til þess að árásin hefði ekki verið framkvæmd fyrir tilstilli erlends ríkis.

„Það er enn mikið af gögnum sem þarf að vinna úr,“ sagði Clapper í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina og er hann var spurður aftur hvort árásin væri örugglega ekki verk erlends ríkis sagði hann að svo virtist ekki vera. „En ég mundi ekki vilja fullyrða það endanlega alveg strax. Þetta eru frumathuganir.“

Frétt mbl.is: Twitter og Netflix óvirkt eftir netárás

Frétt mbl.is: Twitter liggur niðri eftir netárás

Clapper hefur yfirumsjón með Bandarísku leyniþjónustunni (CIA), Alríkislögreglunni (FBI) og Þjóðaröryggisstofnuninni (NSA). Hann sagði netógnir vera á mismunandi stigum. „Við sjáum mun á getu fágaðra hakkara, hakkara sem starfa fyrir erlend ríki, augljóslega Rússlands og Bandaríkjanna sem standa fyrir meinlausari aðgerðum,“ sagði hann. „Síðan eru það önnur ríki sem hafa glæpsamlegan ásetning og svo eru jafnvel enn glæpsamlegri hakkarar sem ekki vinna fyrir erlend ríki,“ bætti hann við.

Netárásin á föstudag varð til þess að vefsíður á borð við Amazon, eBay, Twitter og Spotify lömuðust, sem og vefsíður fjölmiðla eins og CNN, New York Times, Boston Globe, Financial Times og Guardian. Netárásin var gerð á netkerfi fyrirtækisins Dynamic Network Services Inc. sem er ein stærsta netþjónusta heims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert