Óskaði sjálfri sér til hamingju með afmælið

Clinton veifar til kjósenda á alþjóðaflugvellinum í Miami.
Clinton veifar til kjósenda á alþjóðaflugvellinum í Miami. AFP

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, er 69 ára í dag. Clinton tók forskot á afmælissæluna og örstutt frí frá amstri kosningabaráttunnar í gærkvöldi þegar hún sótti tónleika með Adele í Miami. Söngkonan breska lýsti yfir stuðningi við framboð Clinton og sagði tónleikagestum að sleppa því að kjósa Donald Trump.

„Ég verð að vera hreinskilin við ykkur, ég er mjög glöð að vera ekki Bandaríkjamaður akkúrat núna, það er erfiðisvinna,“ sagði Adele við tónleikagesti.

Trump greip boltann á lofti og gagnrýndi Clinton fyrir að gefa sér tíma fyrir að sækja tónleika í miðri kosningabaráttu. Sjálfur hefur hann verið gagnrýndur fyrir að sinna viðskiptaerindum í baráttunni.

Kjósendur óskuðu Hillary til hamingju með daginn á kosningafundi í …
Kjósendur óskuðu Hillary til hamingju með daginn á kosningafundi í í Lake Worth í Flórída í dag. AFP

Blá rósakaka á afmælisdaginn

Clinton er stödd í Miami í Flórída þar sem hún sinni kosningabaráttunni, en kjörstaðir voru opnaðir í ríkinu á mánudag. Flórída er lyk­il­ríki í kosn­ing­un­um og þar eru Hillary Cl­int­on og Don­ald Trump í harðri bar­áttu.

Starfsfólk kosningabaráttunnar gaf sér þó tíma í dag og kom Clinton á óvart með blárri rósaköku.

Hamingjuóskum hefur rignt yfir Clinton á samfélagsmiðlum, en ein færsla hefur vakið meiri athygli en aðrar. Svo virðist sem Clinton hafi óskað sjálfri sér til hamingju með afmælið á Twitter.

Ólíklegt verður að teljast að Clinton sjálf hafi sett inn færsluna, en sérstakt samfélagsmiðlateymi er í kringum Twitter-aðgang forsetaframbjóðandans.

13 dagar eru til kosninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert