Sjálfsmorðssveitir á leið til Mosúl

Börn sem flúið hafa Mosúl komin í móttökubúðir fyrir flóttamenn …
Börn sem flúið hafa Mosúl komin í móttökubúðir fyrir flóttamenn fyrir utan borgina. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eru að senda sjálfsmorðssveitir frá Sýrlandi til Mosúl í Írak til að styrkja vígamenn sína þar í orrustunni við íraska herinn um borgina.

CNN hefur þetta eftir sjónarvottum sem hafi séð tugþúsundir hermanna nálgast borgina.

Mosúl hefur verið höfuðvígi Ríkis íslams í Írak síðustu tvö ár. Síðustu daga hefur íraski herinn, með stuðningi bandalagsþjóða, sótt að borginni.

Samkvæmt frétt CNN hafa hundruð hermanna þegar komið inn í Mosúl. Eru þeir taldir koma frá Raqqa í Sýrlandi. Þetta hefur verið að gerast síðustu tvo daga. Sjónarvottar segja hópinn klæddan hermannafötum og að margir beri sprengjubelti sem og önnur vopn.

Þá kemur fram í frétt CNN að vígamenn Ríkis íslams hafi hlaðið sprengjum á brýr yfir ána Tígris og útbúið bíla fulla af sprengiefni sem notaðir verði í sjálfsmorðsárásum.

Þann 17. október hóf lið bandamanna, með um 100 þúsund hermönnum, að sækja að Mosúl. Það hefur náð töluverðum árangri og náð yfirráðum yfir þorpum umhverfis borgina. Ríki íslams hefur um 6.000 vígamenn við borgina en nú er útlit fyrir að verulega muni fjölga í þeim hópi.

Vígamenn Ríkis íslams hafa beitt ýmsum brögðum og aðferðum í hernaði sínum. Þeir hafa m.a. kveikt í eiturefnaverksmiðjum til að halda herjum bandamanna frá svæðinu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa áhyggjur af því að óbreyttir borgarar í Mosúl og þorpunum í kring verði notaðir sem mannlegir skildir í orrustunni við her bandamanna. Slíkt hefur þegar verið gert og fólk stráfellt. Á laugardag voru 40 íbúar þorpsins Nimrud myrtir og í síðustu viku voru 284 karlmenn og drengir drepnir í nágrenni Mosúl.

Lítið barn sem flúið hefur Mosúl ber vatnsbrúsa að vatnsbóli …
Lítið barn sem flúið hefur Mosúl ber vatnsbrúsa að vatnsbóli í móttökubúðum fyrir flóttafólk fyrir utan borgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert