Stúlkan með grænu augun handtekin

Myndin sem Steve McCurry tók af Sharbat Gula árið 1984 …
Myndin sem Steve McCurry tók af Sharbat Gula árið 1984 og sú sem hann tók árið 2002. ljósmynd/Steve McCurry

Afgönsk kona sem birtist á frægri forsíðu tímaritsins National Geographic þegar hún var tólf ára gömul var í dag handtekin í Pakistan fyrir að búa í landinu á fölskum forsendum. Myndin af Sharbat Gula með fagurgræn augu í flóttamannabúðum í Pakistan árið 1984 er þekktasta forsíðumynd tímaritsins.

Gula er sögð eiga allt að fjórtán ára fangelsi og þúsunda dollara sekt yfir höfði sér fyrir að búa í Pakistan með fölsuð skilríki. Pakistönsk stjórnvöld hafa undanfarið skorið upp herör gegn útlendingum sem hafa ekki dvalarleyfi í landinu.

Embættismenn segja að Gula hafi sótt um pakistönsk persónuskilríki í Peshawar í apríl 2014 undir nafninu Sharbat Bibi. Hún var einn af þúsundum afganskra flóttamanna sem tókst að fá persónuskilríki.

Ljósmyndarinn Steve McCurry tók myndina af Gula í flóttamannabúðum í norðvesturhluta Pakistan árið 1984. Myndin birtist á forsíðu júníheftis National Geographic árið 1985. McCurry hafði uppi á konunni sautján árum síðar í afskekktu afgönsku þorpi árið 2002. Þá var hún orðin þriggja barna móðir og gift bakara.

Milljónir afganskra flóttamanna hafa hafst við í Pakistan í nokkra áratugi allt frá því að þeir flúðu innrás sovéska hersins árið 1979. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að 1,4 milljónir skráðra afganskra flóttamanna séu nú í landinu og ein milljón óskráðra flóttamanna til viðbótar.

Stjórnvöld hafa ítrekað seinkað því að senda Afganana heim en margt bendir til þess að núverandi frestur í mars 2017 verði endanlegur. Undanfarið hafa stjórnvöld leitað uppi afganska flóttamenn sem hafa orðið sér úti um svikin persónuskilríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert