Clinton hagnaðist um tugi milljóna á góðgerðarstofnun

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrataflokksins. …
Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrataflokksins. Minnisblað Wikileaks þykir sýna að forsetinn fyrrverandi hafi nýtt góðgerðastofnun fjölskyldunnar í eigin hagnaðarskyni. AFP

Wikileaks birti í dag minnisblað sem sýnir hvernig Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hagnaðist um tugi milljóna dollara á verkefnum sem starfsmaður góðgerðarstofnunnar Clinton fjölskyldunnar beindi að forsetanum fyrrverandi.

Í minnisblaðinu sem er frá 2011 segir starfsmaðurinn, Douglas Band, að hann hafi persónulega útvegað Clinton verkefni að andvirði meira en 50 milljón dollara á meðan hann var formaður stofnunarinnar.

Band útlistar því næst fjáröflunarstarfsemi sína fyrir Clinton sjálfan og eins fyrir stofnunina, í aðgerðaneti sem hann nefnir Bill Clinton Inc.

Þessi síðasta afhjúpun Wikileaks er talinn geta valdið Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins og maka Bill Clinton, nokkrum erfiðleikum á lokasprettinum í baráttunni um forsetaembættið.

Minnisblaðið kemur úr safni tölvupósta sem stolið var af reikningi John Podesta, sem gegndi áhrifamiklu hlutverki hjá Clinton góðgerðastofnuninni, áður en hann gerðist kosningastjóri Clinton.

Sakað aðstoðarmenn um að hafa fé af foreldrum sínum

Podesta hefur neitað að staðfesta að póstarnir séu frá honum komnir, en bandaríska leyniþjónustan telur tölvuþrjóta á vegum rússneskra stjórnvalda hafa stolið skjölunum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Hvorki Podesta, né starfsmenn framboðs Clinton hafa hins vegar látið í ljós efa um réttmæti skjalanna.

Góðgerðastofnunin, hefur að því er fram kemur í skjölunum,  valdið spennu milli aðstoðarmanna Bill Clintons og Chelsea dóttur hans. Chelsea sakar aðstoðarmennina um að hafa fé af foreldrum sínum og um að nýta sér uppákomur samtakanna til að útvega eigin fyrirtækjum viðskipti.

Minnisblaðið sem birt var í dag, sendi Band sem svör við kvörtunum Chelsea. Þar ver hann að hafa notað eigin ráðgjafafyrirtæki Teneo til að afla samtökunum fjár og segist m.a. hafa fengið styrki frá stórfyrirtækjum á borð við Coca-Cola, Dow Chemical og svissneska bankanum UBS.

„Óháð fjáröflunarstarfi okkar og ákvörðunarferli fyrir hönd sjóðsins, þá höfum við helgað okkur því að hjálpa forsetanum [Bill Clinton] að tryggja þátttöku í ábatasömum verkefnum, m.a. við ræðuhöld, bækur og ráðgjafastörf,“ segir í minnisblaðinu.

„Til að styðja þau störf sem forsetinn vinnur í ábataskyni, höfum falast eftir og fengið, þjónustu sem viðeigandi er fyrir forsetann og fjölskyldu hans, hvað varða ferðamáta, gistiaðstöðu, sumarleyfisaðstöðu og fleira.“

Fékk ekki greitt fyrir að tryggja forsetanum verkefni

Band sagðist hvorki hafa fengið greitt fyrir, né hefði hann tekið prósentur af þeim „rúmlega 50 milljón dollara verkefnum í ábataskyni sem hann hefði tryggt Clinton forseta til þessa“.

Clinton góðgerðastofnunin, sem hefur notið stuðnings erlendis frá, m.a. frá Sádí-Arabíu og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, hefur ítrekað verið gagnrýnd af Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana.

Repúblikanar hafa sakað Clinton um að veita stórum stuðningsaðilum sjóðsins aukin aðgang að stjórnvöldum er hún var utanríkisráðherra á árunum 2009-2013, ekki hafa þó enn fundist neinar sannanir um slíkt í póstunum.

Starfsfólk framboðs hennar hefur engu að síður áhyggjur af að aðgerðir forsetans fyrrverandi, kunni að valda konu hans erfiðleikum í lokaspretti baráttunnar um Hvíta húsið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert