Krefst rannsóknar á árásinni á skólann

Sýrlenskur maður skoðar skemmdir á skólastofu í þorpinu Hass, eftir …
Sýrlenskur maður skoðar skemmdir á skólastofu í þorpinu Hass, eftir loftárás gærdagsins sem kostaði fjölda barna lífið. AFP

Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur krafist þess að rannsókn fari fram á tildrögum loftárásar sem gerð var á skóla í Idlib héraði í Sýrlandi í gær. Meira en 20 börn voru drepinn í árásinni sem aðgerðarsinnar segja hafa beinst gegn skólanum. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig varað við því að veturinn sem framundan er, kunni að verða sá versti frá því að Sýrlandstríðið hófst fyrir 5 árum síðan.

Jan Egeland, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði átökin í landinu verða sífellt grimmilegri.  Stríðið hefði áhrif á sífellt fleiri almenna borgara.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sagði árásina á skólann „ómannúðlega, en skólinn er einn af fimm skólum í héraðinu sem hefur orðið fyrir árás frá því 11. október sl.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgjast með ástandi mannréttindamála í Sýrlandi, og þeir sem tóku þátt í björgunaraðgerðum í kjölfar loftárásarinnar sögðu tölu látinna nú vera komna upp í 35 og að flest fórnarlambanna væru börn.

Loftárásin er sögð hafa verið gerð á skóla í þorpinu Hass, sem eru um 75 km suðvestur af Aleppo og var hún á þeim tíma sem börnin voru að búa sig undir að halda heim á leið, vegna hættunnar á loftárásum.

Fréttavefur BBC segir stjórnvöld í Rússlandi og sýrlensku stjórnina hafna allri ábyrgð á árásunum.  Igor Konashenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, sagði fullyrðinguna um loftárás vera tilbúning og að rússneskt flygildi hefði í dag greint að þak skólans væri enn í heilu lagi.

Syrian Observatory for Human Rights, sem safnar upplýsingum íbúum í Sýrlandi, sagði herflugvélar frá annaðhvort Rússum eða Sýrlendum hafa staðið fyrir sex loftárásum á þorpið og aðgerðarsinnar hafa deilt myndum af líkum fjölda barna á samfélagsmiðlum. 

„Ef svona hryllilegir atburðir halda áfram að gerast, þrátt fyrir reiði alþjóðasamfélagsins, þá er það af því að gerendurnir – hvort sem þeir eru valdhafar eða uppreisnarmenn, óttast ekki réttlæti,“ sagði Ban. „Það verður að sýna að þeir hafa á röngu að standa.“

„Þetta er harm­leik­ur. Og ef þetta var gert vilj­andi, þá er það stríðsglæp­ur,“ sagði Ant­hony Lake, yf­ir­maður Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna (UNICEF). Árásin kann að reynast ein sú banvænsta á sýrlenskan skóla frá því að stríðið hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert