Þúsundir dvelja í tjöldum eftir skjálftana

Íbúar Norcia safnast saman eftir skjálftann í gær. Þúsundir höfðust …
Íbúar Norcia safnast saman eftir skjálftann í gær. Þúsundir höfðust við í tjöldum í nótt. AFP

Þúsundir íbúa Mið-Ítalíu eyddu nóttinni í tjöldum og öðru bráðabirgðahúsnæði eftir að einn öflugasti jarðskjálfti sem orðið hefur í landinu í áratugi, reið yfir svæði í gær. Jarðskjálftinn sem var 6,6 er sá fjórði sem orðið hefur á Mið-Ítalíu í þrjá mánuði.

Um 20 manns slösuðust í skjálftanum í gær, en ekkert mannfall virðist þó hafa orðið, ólíkt fyrsta skjálftanum í ágúst sem kostaði tæplega 300 manns lífið. Enn verður vart öflugra eftirskjálfta, sem hafa valdið hruni fleiri bygginga að sögn fréttavefjar BBC.

Fjöldi íbúa bæjarins Norcia, sem er nálægt miðju skjálftans á sunnudag, eyddi nóttinni í tjöldum á meðan að aðrir tóku boði stjórnvalda um vist í skýlum nær Adríahafinu.

Þetta verður erfið nótt,“ sagði Fabrizio Curcio, yfirmaður ítölsku almannavarnanna í gær. „Skjálfti upp á 6,5 breytir algjörlega stöðunni.“

Stefano Boldrini, einn af íbúum Norcia, sem dvaldi í sendibíl ásamt átta ára dóttur sinni var spurður hvort þau ætluðu að búa áfram á svæðinu. „Hvernig getum við það? Það er enginn skóli eftir, kirkja eða lögreglustöð. Það er ekkert eftir hérna,“ sagði hann.

St Benedict kirkjan í Norcia var meðal margra sögufrægra bygginga sem eyðilögðust í skjálftanum í gær. Eina uess að ekki varð manntjón varð í skjálftanum í gær, er talið mega þakka þeirri ákvörðun að rýma fjölda bygginga eftir skjálftana tvo sem urðu í síðustu viku. Gripið var til þeirra ráðstafana, þar sem talið var að fjöldi bygginga gæti verið viðkvæmur fyrir eftirskjálftum.

Að sögn ítalskra yfirvalda var þremur bjargað lifandi upp úr rústum í bænum Tolentino. Bæjarstjórinn, Giuseppe Pezzanesi, sagði þetta svartasta dag í sögu bæjarins. „Skaðinn er óbætanlegur. Það eru þúsundir á götum úti, óttaslegnir og grátandi. Vonandi er þessu að ljúka því fólk er aðframkomið andlega,“ sagði hann.

Verulegar skemmdir urðu einnig á byggingum í bæjunum Castelsantangelo og Preci, en íbúar höfðu flestir þegar yfirgefið heimili sín í kjölfar skjálftanna í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert