Dæmdur fyrir nasistahúðflúr

Frá Auschwitz útrýmingarbúðunum.
Frá Auschwitz útrýmingarbúðunum. AFP

Þýskur bæjarfulltrúi var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að bera nasistahúðflúr. Maðurinn, hinn 28 ára gamli Marcel Zech, situr í bæjarstjórn bæjarins Neuruppin norður af Berlín, höfuðborg Þýskalands fyrir Þjóðernisdemókrataflokk Þýskalands.

Fram kemur í frétt AFP að Zech hafi upphaflega verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í desember en æðra dómstig hafi ákveðið að þyngja refsingu hans. Hann var ákærður í kjölfar þess að húðflúrið sást þegar hann fór í sund. Húðflúrið sýnir slagorð nasista og mynd af Auschwitz, útrýmingarbúðum nasista á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Dómarinn í málinu sagði að vægari dómur myndi senda þau skilaboð að þýska ríkið væri að gefa eftir gagnvart vaxandi uppgangi hægriöfgamanna. Mynd var tekin af húðflúrinu þegar Zech fór úr að ofan við sundlaug í Oranienburg í Þýskalandi fyrir ári.

Blaðamaður tók myndina og birti hana síðan á Facebook. Með fylgdi texti um að enginn á staðnum hefði gert athugasemd við húðflúrið. Verjandi Zech sagði hann hafa falið myndina af Auschwitz með öðru húðflúri í millitíðinni. Slagorðið sæist hins vegar enn.

Til stendur af hálfu Zech að áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert