„Fellibylurinn Trump“ skellur á Mexíkó

Seðlabankastjóri Mexíkó varaði við því í septembermánuði að sigur Donalds Trumps í forsetakosningum Bandaríkjanna myndi vera eins og kröftugur fellibylur fyrir land sitt.

Seðlabankastjórinn var sannspár. Eftir að fellibylurinn Trump kom að landi í nótt hefur gengi mexíkóska pesósins fallið niður í metlægðir, og sömuleiðis gengi hlutabréfa á mörkuðum þar í landi.

Löndin hvort öðru mikilvæg

Ríkisstjórn Mexíkó segist þó ekki þurfa að grípa til sérstakra aðgerða vegna ástandsins, og nú hefur forsetinn Enrique Peña Nieto rétt út sáttarhönd til Repúblikans og milljarðamæringsins í nágrannalandinu.

„Ég samþykkti að hitta hinn nýkjörna forseta, einkum áður en hann tekur við embættinu, til að skýra þá stefnu sem samband beggja landa á að taka núna,“ segir Peña Nieto í ávarpi frá heimili sínu.

„Við höfum sammælst um að við þurfum að vinna saman að traustu sambandi og sameiginlegri framtíð, því löndin okkar eru mjög mikilvæg hvort fyrir annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert