Reknir frá landi

Noor Sahara, er sex ára gömul. Hún er Rohingya-múslími og …
Noor Sahara, er sex ára gömul. Hún er Rohingya-múslími og flúði yfir landamærin. AFP

Nokkrum yfirfullum bátum með flóttafólki frá Búrma var snúið til baka af landamæravörum í Bangladess í morgun. Um er að ræða Rohingya-fólk sem er að flýja ofbeldið sem það verður fyrir í Búrma þar sem þau eru álitin réttlaus.

Stjórnarandstaðan í Bangladess hefur biðlað til yfirvalda um að fólkinu, sem eru múslímar, verði veitt skjól í landinu en þúsundir flóttamanna leituðu skjóls í Bangladess í síðustu viku. Frásagnir þeirra eru skelfilegar, hópnauðganir, pyntingar og morð af hálfu sérsveita  hersins í Búrma.

Átta bátar reyndu að komast yfir Naf ána í morgun en hún skilur að Rakhine-hérað í Vestur-Búrma og suðurhluta Bangladess en fólkið var rekið til baka aftur. Sex bátum var einnig synjað um að koma að landi í Bangladess í gær. 12-15 Rohingyar voru í hverjum bát.

Stjórnvöld í Dhaka segja að þúsundir hafi síðan komið fótgangandi að landamærunum en yfirvöld hafa neitað þeim um að koma til landsins þrátt fyrir ákall alþjóðasamfélagsins. Hvetja stjórnvöld í Bangladess stjórnvöld í Búrma til þess að gera meira til þess að koma í veg fyrir flótta fólks.

Rohingya-fólkið, sem tel­ur um eina millj­ón manns, er virt sem ólög­leg­ir inn­flytj­end­ur af mörg­um inn­an hins Búdda-trúaða meiri­hluta í Búrma. Í Rakhine, þar sem fjölmargir íbúar sem eru Búddatrúar hafa óbeit á Rohinya-múslímum, hefur ofbeldi gagnvart minnihlutahópnum stigmagnast að undanförnu. Sérsveitarmenn eru áberandi í héraðinu og að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna eru stundaðar þjóðernishreinsanir á Rohingya-múslímum í héraðinu. Er meðal annars vísað til þess að hermenn hika ekki við skjóta fólk sem reynir að flýja. En ný ríkisstjórn Búrma, sem friðarverðlaunahafi Nóbels Aung San Suu Kyi leiðir, neitar ásökunum. 

Frétt mbl.is: Hann átti aldrei möguleika

Alam var sex mánaða gamall þegar hann dó á laugardag.
Alam var sex mánaða gamall þegar hann dó á laugardag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert