Herinn tekur undir með frumbyggjum

Bandaríkjaher hefur ákveðið að banna lagningu olíuleiðslu undir vatnsból á landareign hersins í Norður-Dakóta. Frá þessu greina frumbyggjar og aðgerðarsinnar sem hafa mótmælt lagningu leiðslunnar. 

Standing Rock-ættbálkurinn segir að þetta sé söguleg niðurstaða og að þau muni standa í eilífri þakkarskuld við Barack Obama Bandaríkjaforseta. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fögnuður braust út meðal mótmælenda þegar fréttirnar bárust.
Fögnuður braust út meðal mótmælenda þegar fréttirnar bárust. AFP

Í yfirlýsingu mótmælenda segir að verkfræðideild hersins hafi ákveðið að skoða aðra kosti. 

Talsmenn hersins hafa enn ekki tjáð sig um málið.

Mótmælin gegn olíuleiðslunni hófust í apríl á þessu ári. Framkvæmdin er metin á marga milljarða dala og er leiðslan nánast tilbúin fyrir utan hluta sem liggur skammt frá landi Standing Rock-ættbálksins.

AFP

Leiðslunni var mótmælt því íbúar óttast að hún muni menga drykkjarvatn og liggja yfir heilagan grafreit frumbyggja. 

Í síðustu viku gengu mörg hundruð fyrrverandi hermenn til liðs við mótmælendur, sem telja nokkur þúsund. Fólkið hefur hafst við í miklum kulda. Því hafði verið skipað að yfirgefa svæðið fyrir morgundaginn. 

Greint hefur verið frá því að Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hafi átt hluti í orkufyrirtækinu Energy Transfers Partners sem vann að lagningu leiðslunnar og í Phillips 66, sem á fjórðung í leiðslunni. Trump hefur lýst því yfir að hann styðji framkvæmdina. Hann hefur aftur á móti neitað því að tengsl séu á milli pólitískrar stefnu hans og fjárhagslegra hagsmuna.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert