Dæmdur í lífstíðarfangelsi

Justin Ross Harris með syni sínum, Cooper.
Justin Ross Harris með syni sínum, Cooper.

Justin Ross Harris, sem skildi son sinn eftir í brennandi heitum bíl tímunum saman með þeim afleiðingum að hann lést, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Hinn 36 ára gamli Harris var í síðasta mánuði sak­felld­ur fyr­ir morð að yf­ir­lögðu ráði. Hann skildi 22 mánaða gamlan son sinn, Cooper, einan eftir í bíl klukkustundum saman með áðurnefndum afleiðingum fyrir tveimur árum.

Frétt mbl.is: Drap son sinn viljandi

Sjálfur hélt Harris því fram að um óviljaverk hefði verið að ræða og hann hefði gleymt að fara með son sinn á dagheimili um morguninn. Harris átti að aka syni sínum á dagheimilið en mörgum klukkustundum síðar fannst hann látinn í bílnum fyrir utan vinnustað Harris.

Við réttarhöldin kom meðal annars fram að Harris sendi stúlkum undir lögaldri klúr smáskilaboð á meðan sonur hans var að deyja.

Dómari í málinu sagði glæpinn hræðilegan og að Harris hefði „kaldlyndur gengið í burtu og skilið barnið eftir í steikjandi hita til að deyja.“

Harris stóð svipbrigðalaus frammi fyrir dómaranum sem dæmdi hann í lífstíðarfangelsi. Hann var sakfelldur fyrir átta hluti, þar á meðal morð af yfirlögðu ráði og kynferðisbrot sem tengjast smáskilaboðunum sem hann sendi stúlkunni undir lögaldri.

Saksóknarar héldu því fram að Harris hefði ákveðið að myrða son sinn vegna þess að hann vildi yfirgefa fjölskyldu sína og halda áfram að vera með öðrum konum. 

Dánarorsök Coopers var ofhitnun þar sem hann hann sat í bílnum í sjö klukkustundir í steikjandi hita en hitastigið úti var 32 gráður.

Saksóknarar sýndu fram á að fimm dög­um áður en dreng­ur­inn lést hafi Harris skoðað mynd­skeið á net­inu um hvernig hita­stig í bíln­um get­ur hækkað mikið á aðeins nokkr­um mín­út­um.

Fyrrverandi eiginkona Harris, Leanna Taylor, sem skildi við Harris eftir að hann var handtekinn, bar vitni fyrir dómi. Hún sagði Harris hafa eyðilagt líf hennar en hann hefði ekki gert þetta viljandi, enda var hann góður faðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert