Hver verður utanríkisráðherra Trumps?

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Miklar vangaveltur eru uppi um það hvern Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, eigi eftir að skipa sem næsta utanríkisráðherra landsins. Embættið er talið það eftirsóttasta í ríkisstjórn Bandaríkjanna en núverandi utanríkisráðherra er Demókratinn John Kerry.

Fram kemur í frétt AFP að Trump hafi til þessa meðal annars skipað varnarmálaráðherra, heilbrigðismálaráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra, dómsmálaráðherra, forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA og sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Margir hafi verið nefndir sem hugsanlegir utanríkisráðherrar.

Þar á meðal eru Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts, David Petraeus, fyrrverandi forstjóri CIA, Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, Bon Corker, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og John Bolton, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Sama er að segja um Rex Tillerson, fyrrverandi forstjóra olíufélagsins Exxon, Jon Huntsman, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Kína, Dana Rohrabacher, fulltrúadeildarþingmann frá Kaliforníu og flotaforingjann fyrrverandi James Stravridis.

Trump mun formlega taka við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert