DiCaprio fundaði með Trump

Leonardo DiCaprio.
Leonardo DiCaprio. AFP

Kvikmyndaleikarinn Leonardo DiCaprio fundaði með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, nýverið þar sem loftlagsmál voru til umræðu. DiCaprio kynnti fyrir Trump áætlun um að styrkja efnahagslíf landsins með því að leggja áherslu á endurnýjanlega orku og skapa með því fjölda starfa.

Fram kemur í frétt AFP að DiCaprio hafi fundað með Trump ásamt Terry Tamminen, framkvæmdastjóra Leonardo DiCaprio-stofnunarinnar. Ivanka Trump, dóttir hins verðandi forseta, hafi einnig setið fundinn. Lögðu þeir áherslu á að skapa mætti milljónir starfa í Bandaríkjunum við framkvæmdir vegna endurnýjanlegra orkugjafa.

DiCaprio hefur lengi látið sig umhverfismál varða en hann studdi Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrata, í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Trump hafði hins vegar betur í slagnum við Clinton. Trump hefur lýst loftlagsbreytingum sem blekkingum. Tamminen sagðist engu að síður hafa lýst áhuga sínum á að hitta DiCaprio aftur í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert