Fjórir fórust í eldsvoða í Finnlandi

Finnska lögreglan.
Finnska lögreglan. Vefur finnsku lögreglunnar

Þrjú börn og kona fórust í eldsvoða í íbúð í Nordsjö-hverfinu í Helsinki í nótt. Tilkynnt var um eld í íbúðinni um þrjú í nótt.  Slökkviliðið hefur staðfest að þrjú börn og kona hafi fundist látin í íbúðinni. Finnska ríkisútvarpið greinir frá því að konan sé fædd árið 1976 og því fertug að aldri. Börnin eru á aldrinum tveggja til sjö ára en þau eru fædd 2009, 2010 og 2014.

Ekki liggur fyrir hvað olli eldsvoðanum en að sögn Anne Hietala, sem stýrir rannsókn lögreglunnar, er gufubað íbúðarinnar verst farið eftir eldsvoðann en íbúðin er óíbúðarhæf eftir eldinn. 

Það voru nágrannar fjölskyldunnar sem höfðu samband við neyðarlínu eftir að brunalykt fór að berast um fjölbýlishúsið. Ekki tók langan tíma fyrir slökkviliðsmenn að ná konunni og börnunum út úr íbúðinni en þau voru öll látin, að því er fram kom á fundi lögreglunnar með fjölmiðlum í morgun. Eldurinn kom upp í sex hæða fjölbýlishúsi við Norvägen við Norðursjóinn, í um 10 km fjarlægð frá miðborg Helsinki.

Frétt YLE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert