Að minnsta kosti þrettán látnir

Að minnsta kosti þrettán létust er bílsprengja sprakk við íþróttaleikvang í Istanbúl í kvöld samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar. Árásinni var beint gegn óeirðalögreglumönnum. Fyrstu fréttir hermdu að yfir tuttugu hefðu særst, aðallega lögreglumenn sem voru að yfirgefa leikvanginn eftir fótboltaleik nú í kvöld. Nú er talið að minnsta kosti 38 séu særðir, sumir lífshættulega.

Tvö helstu fótboltalið Tyrklands, Besiktas og Bursaspor, áttust við á leikvanginum í kvöld sem er heimavöllur Besiktas.

Frétt mbl.is: Sprengingar í Istanbúl

Í frétt Reuters segir að tvær sprengjur hafi sprungið. Lögreglumennirnir sem talið er að hafi verið skotmarkið voru þá komnir upp í rútu. AFP-fréttastofan hefur eftir ráðherra í Tyrklandi að önnur sprengjan hafi sprungið inni á leikvanginum en hin fyrir utan hann. Önnur árásin hafi verið sjálfsmorðsárás.

„Þetta var eins og helvíti. Eldtungur náðu langt upp í himininn. Ég var að drekka kaffi í nágrenninu, við hlið mosku,“ hefur Reuters eftir sjónarvottinum Omer Yilmaz. „Fólk fór undir borð, ein kona fór að gráta. Aðdáendur fótboltaliðanna voru þarna að drekka te og leituðu skjóls. Þetta var hræðilegt.“

Búið er að girða af stórt svæði við leikvanginn og enn er unnið að því að slökkva elda sem kviknuðu við sprengingarnar. 

„Ég fordæmi þessi miskunnarlausu hryðjuverk í Istanbúl,“ sagði íþróttamálaráðherra landsins á Twitter. Fleiri ráðherrar segja að árásin sé hryðjuverk.

Forseti Tyrklands, Tayyip Erdogan, var í Istanbúl er árásin var gerð.

Fjöldi árása hefur verið gerður í Tyrklandi síðustu mánuði. Margar þeirra hafa verið mannskæðar. Í júní létust 45 og hundruð særðust er þrjár árásir voru gerðar á flugvelli í Istanbúl.

Fjöldi lögreglumanna og sjúkrabíla eru á vettvangi við leikvang Besiktas-fótboltafélagsins …
Fjöldi lögreglumanna og sjúkrabíla eru á vettvangi við leikvang Besiktas-fótboltafélagsins í miðborg Istanbúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert