Skipað að fara í jólaskap

AFP

Ríkisstjórn Venesúela hefur gert um 200 embættismenn og hermenn út til þess að neyða verslanaeigendur í Caracas, höfuðborg landsins, til þess að halda jólaútsölur. Markmiðið er að reyna að skapa jólastemmningu með handafli, segir í frétt AFP, vegna slæms efnahagsástands í landinu þar sem almenningur á í miklum erfiðleikum með að kaupa mat.

Haft er eftir einum verslunareiganda að fulltrúar stjórnvalda hafi mætt í verslun hans og sett stórt útsöluskilti í búðargluggann. Fólk hafi í kjölfarið streymt í verslunina en hann ætti erfitt með að komast í jólaskap. Með því að veita afslátt væri hann að gefa vörurnar. Stjórnvöld hafa sakað umrædda verslunareigendur um að selja vörur sínar á of háu verði.

Verslunareigendurnir þvertaka fyrir það. Framganga stjórnvalda muni þýða að þeir kunni að verða gjaldþrota. Samkvæmt lögum í Venesúela frá 2014 mega verslanir ekki hafa meiri hagnað af starfsemi sinni en 30% sem er afslátturinn sem auglýstur er á útsöluskiltunum sem embættismenn hafa komið fyrir í verslununum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert