Sprengingar í Istanbúl

Sjúkrabílar við íþróttaleikvanginn í Istanbúl þar sem sprengingin varð í …
Sjúkrabílar við íþróttaleikvanginn í Istanbúl þar sem sprengingin varð í kvöld. AFP

Bílsprengja sprakk við íþróttaleikvang í Istanbúl nú í kvöld og særðust 20 manns hið minnsta. Sprengingin varð nokkrum tímum eftir að leik tveggja stærstu knattspyrnuliða Tyrklands á vellinum lauk.

Sprengingin varð fyrir utan Vodafone-íþróttaleikvang Besiktas-knattspyrnuliðsins í miðborg Istanbúl, með þeim afleiðingum að a.m.k. 20 manns særðust.

Talið er að sprengjunni hafi verið beint gegn óeirðalögreglumönnum og …
Talið er að sprengjunni hafi verið beint gegn óeirðalögreglumönnum og eru þeir meðal þeirra sem særðust. Skjáskot/TRTWorld

Reuters-fréttastofan hefur eftir Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, að sprengjunni hafi verið beint gegn bíl óeirðalögreglunnar og að þeir sem særðust séu lögreglumenn.

Öryggislögregla hefur nú girt svæðið af og hafa tyrkneskar sjónvarpsstöðvar sýnt myndir frá vettvangi þar sem brennandi bílflak og tveir eldar til viðbótar sjást loga fyrir utan leikvanginn.  

„Ég heyrði tvær sprengingar og nú heyri ég í sírenum sjúkrabíla flýta sér á vettvang,“ sagði fréttaritari AFP-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert