Tillerson utanríkisráðherra Trump

Rex Tillerson, forstjóri Exxon, verður að öllum líkindum næsti utanríkisráðherra …
Rex Tillerson, forstjóri Exxon, verður að öllum líkindum næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Rex Tillerson, forstjóri Exxon-olíufyrirtækisins, verður að öllum líkindum næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna og er búist við að Donald Trump, nýkjörinn forseti landsins, tilkynni skipanina síðar í dag að sögn fréttastofu NBC-sjónvarpsstöðvarinnar.

Reuters-fréttastofan hafði eftir einum starfsmanna Trump í gær að Tillerson væri einn fjögurra kandídata sem líklegir væru til að hljóta starfið og að Tillerman myndi funda með Trump fyrir hádegi.

Starfsmaðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði Tillerson nú vera líklegri en Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum 2012, til að hljóta starfið. Romney hefur fundað í tvígang með Trump undanfarið.

Sem forstjóri Exxon ber Tillerson ábyrgð á rekstri fyrirtækisins í 50 löndum, m.a. Rússlandi. Exxon undirritaði samning við Rosneft, stærsta ríkisrekna olíufyrirtækið í Rússlandi, árið 2011 um samstarf við olíuleit og -vinnslu og hafa fyrirtækin unnið að 10 slíkum samstarfsverkefnum í Rússlandi frá undirrituninni.

NBC-fréttastofan hafði eftir tveimur nánum samstarfsmönnum Trump að Tillerson yrði næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þeir ítrekuðu þó að ekkert væri fast í hendi fyrr en hinn nýkjörni forseti staðfesti skipanina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert