Tímaritið Vanity Fair setti nýtt met í fjölda nýrra áskrifenda eftir að Donald Trump helti sér yfir það vegna lélegrar gagnrýni sem einn veitingastaða hans fékk hjá því. Trump hafði haldið því fram að áskrifendum blaðsins hefði fækkað verulega og það væri í raun dauðadæmt.
„Hefur einhver kannað virkilega lélegar tölur @VanityFairMagazine? Langt niður á við, mikil vandræði, dautt! Graydon Carter, hæfileikalaus, verður rekinn!“ skrifaði Trump á Twitter og vísaði þar til ritstjóra tímaritsins en þeir hafa eldað grátt silfur saman í fjölda ára.
Has anyone looked at the really poor numbers of @VanityFair Magazine. Way down, big trouble, dead! Graydon Carter, no talent, will be out!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 15, 2016
Tilefnið var óvægin gagnrýni sem veitingastaður í Trump-turninum í New York fékk í tímaritinu. Fyrirsögn gagnrýninnar var „Trump-grillið gæti verið versti veitingastaður í Bandaríkjunum“.
Talskona Vanity Fair segir að eftir árás Trump á Twitter hafi tímaritið bætt við sig 13.000 nýjum áskrifendum á einum sólahring sem sé met hjá nokkru tímariti útgáfufyrirtækisins Conde Nast. Tímaritið hafði sett upp borða á vefsíðu sína sem á stóð „Tímaritið sem Trump vill ekki að þú lesir“ og lesendur voru hvattir til að gerast áskrifendur.
Veitingahúsagagnrýnin fékk jafnframt eina milljón einstakra skoðana eftir tíst Trump sem þó hlekkjaði ekki á greinina.