Myrtar fyrir að vinna utan heimilisins

Lögreglumaður virðir fyrir sér bifreiðina sem konurnar voru í þegar …
Lögreglumaður virðir fyrir sér bifreiðina sem konurnar voru í þegar þær voru myrtar. AFP

Byssumenn skutu fimm kvenkyns flugvallarstarfsmenn og ökumann þeirra til bana í suðurhluta Afganistan í morgun. Konunum höfðu borist hótanir og líkur eru á að þær hafi verið myrtar vegna þess að þær störfuðu utan heimilisins.

Konurnar voru á leið í vinnuna í Kandahar þegar að minnsta kosti þrír byssumenn á mótorhjólum skutu að þeim, að sögn talsmanns yfirvalda.

Samim Kheplwak sagði í samtali við AFP að konurnar hefðu allar látið lífið og bílstjórinn þeirra sömuleiðis en árásarmennirnir náðu að flýja. Málið er í rannsókn.

Að sögn framkvæmdastjóra alþjóðaflugvallarins í Kandahar voru konurnar starfsmenn einkafyrirtækis og höfðu þann starfa að leita á kvenkyns farþegum og aðstoða þá með farangur sinn.

Hann sagði að konurnar hefðu óttast um öryggi sitt eftir að þeim bárust morðhótanir frá fólki sem mislíkaði að þær störfuðu utan heimilisins.

Konur sem velja að fara út á vinnumarkaðinn hafa löngum verið skotmörk talíbana og annarra herskárra samtaka í Kandahar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert