„Hefði getað farið miklu hraðar“

Frakkinn Robert Marchand er 105 ára gamall og í gær tók hann sig til og hjólaði inn í sögubækurnar með því að hjóla 22,547 km (rúmlega 22,5 km) á einni klukkustund. Þetta er besti tími hjólreiðamanns á þessum aldri en Marchand tók það fram að hann hefði getað farið miklu hraðar.

Marchand setti metið í Saint-Quentin-en-Yvelines, vestur af París, og þegar hann kom í mark var hann ósáttur við að hafa ekki séð neinar merkingar undir lokin.

„Ég sá engin merki þar sem fram kom að það væru tíu mínútur eftir. Ef svo hefði verið þá hefði ég gefið í,“ sagði Marchand við fjölmiðlafólk sem fylgdist með keppninni og gekk einn og óstuddur í burtu.

Maður verður að finna til einhvers staðar

Aðspurður sagðist hann vera óþreyttur og fyndi ekkert til í fótunum en aðra sögu væri að segja af handleggjunum. „Maður verður að finna til einhvers staðar,“ segir Marchand sem viðurkennir að vera meir og hann hafi alvarlega velt fyrir sér hvort þetta væri raunverulegt eða draumur. 

Robert Marchand er fæddur árið 1911 og aðspurður um hvort hann ætlaði að halda áfram keppni svaraði hann neitandi en fyrir þremur árum hjólaði hann 26,927 km (tæplega 27 km) á klukkustund sem er met í aldurshópnum 100 ára og eldri. 

Heimsmetið er hins vegar 54,526 km (rúmlega 54,5 km) á einni klukkustund en það setti breski hjólreiðamaðurinn Bradley Wiggins í London árið 2015. Wiggins er margfaldur Ólympíumeistari í hjólreiðum og fór með sigur af hólmi í Tour de France keppninni árið 2012.

 Marchand var slökkviliðsmaður í París á fjórða tug síðustu aldar en flutti síðar til Kanada og Venesúela. Hann hefur stundað íþróttir allt sitt líf, hjólreiðar, fimleika og hnefaleika. 

Að hans sögn er hollt fæði og hreyfing lykilinn á bak við langlífi og að vera í góðu formi á þessum aldri.

„Ég hef stundað íþróttir allt mitt líf, borðað mikið af ávöxtum og grænmeti og ekki drukkið mikið kaffi,“ segir Marchand en hann hjólar 10-20 km daglega. Hann er hins vegar hættur að æfa úti þar sem hann óttast að fá flensu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert