Sex systkini fórust í eldsvoða

Mynd úr safni en AFP er ekki með neinar myndir …
Mynd úr safni en AFP er ekki með neinar myndir frá eldsvoðanum. AFP

Sex systkini fórust í eldsvoða í Baltimore í fyrrinótt en móður þeirra og þremur systkinum þeirra var bjargað út úr brennandi húsinu. 

New York Times hefur eftir Roman Clark, talsmanni slökkviliðsins í Baltimore að móðirin og börnin hafi verið flutt á sjúkrahús og eitt þeirra, átta ára gömul stúlka, hafi bjargað tveimur systkinum sínum, 4ra og 5 ára, út úr brennandi húsinu. Börnin voru öll á gjörgæslu en sú elsta er minna slösuð en þau yngri. Slökkviliðsstjórinn segir að átta ára stúlkan hafi  bjargað lífi bræðra sinna.

Börnin sem létust voru níu mánaða drengur, tveggja ára drengur, þriggja ára tvíburasystur og tvær stúlkur, tíu og ellefu ára. 

Fulltrúardeildarþingmaðurinn Elijah E. Cummings, sem er þingmaður demókrata í Maryland, segir að móðirin heiti Katie Malone en hún hefur starfað á skrifstofu hans í 11 ár í Catonsville. Cummings hefur verið í sambandi við fjölskyldu hennar og heitir því að allt verði gert til þess að styðja við bakið á Malone og fjölskyldunni en eiginmaður hennar og faðir barnanna var í vinnu þegar eldurinn kviknaði. 

Útkallið barst skömmu eftir miðnætti í gær og var slökkviliðið komið á vettvang um 00:30. Um var að ræða hús á þremur hæðum en húsið hrundi nánast til grunna. Lík barnanna fundust í brunarústunum með aðstoð sporhunda.

Rannsókn á eldsupptökum stendur enn að að sögn nágranna var eldurinn gríðarlegur og neyddust slökkviliðsmennirnir að hörfa þegar þeir reyndu að komast inn í brennandi húsið. „Húsið hrundi til grunna,“ segir Jenna Wiggins í samtali við NYT. 

Annar nágranni, Robert Spencer, segir í samtali við Washington Post að hann hafi vaknað við hljóðin þegar rúður hússins sprungu. Hann hljóp út og sá nágrannakonu sína koma út úr eldinum, andlit hennar svart af reyk og brunnið. Hann spurði hana hvar börnin væru. „Þrjú þeirra eru í bakgarðinum,“ svaraði Katie Malone þegar hún koma gangandi að honum greinilega í áfalli. Hann spurði hvar hin væru og fékk svarið: Uppi. Hann segist hafa hlaupið að húsinu og ætlað að fara inn að bjarga börnunum en eldhaf hafi mætt honum og ekki möguleika á að komast lifandi út úr húsinu sem síðan hrundi eins og spilaborg. 

Frétt Washington Post

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert