Sjálfan sem breytti öllu

Sjálfan fræga af Anas Modamani og Angelu Merkel.
Sjálfan fræga af Anas Modamani og Angelu Merkel. Skjáskot af netinu.

Anas Modamani, nítján ára gamall flóttamaður frá Sýrlandi hefur höfðað mál gegn Facebook fyrir að grípa ekki til aðgerða þegar hann var bendlaður við hryðjuverk í lygafréttum á samfélagsmiðlinum.

Modamani komast í heimsfréttirnar haustið 2015 þegar hann tók sjálfu af sér með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þegar hún heimsótti búðir hælisleitenda í Berlín. Í kjölfarið varð myndin að táknmynd fyrir viðbrögð Þjóðverja í garð flóttafólks. 

Fulltrúum Facebook er gert að mæta fyrir héraðsdóm í borginni Würzburg þar sem málið er tekið fyrir. Um getur verið að ræða tímamótamál í því hvernig stjórnvöld geta gert netfyrirtæki ábyrg fyrir efni sem birtist á síðum þeirra.

Modamani, sem er frá Darayya, úthverfi Damaskus, tók myndina í Spandau hverfinu í Berlín 10. september 2015. Síðan þá hefur myndin ítrekað birst á samfélagsmiðlum þar sem Modamani er tengdur við hryðjuverk og annað saknæmt athæfi. 

Í mars í fyrra birtust nokkrar lygafærslur og -greinar þar sem Modamani var sagður verið Najim Laachraoui, einn hryðjuverkamannanna sem stóð á bak við hryðjuverkin í Brussel. Svipaðar færslur birtust þegar tilraun var gerði til sjálfsvígsárásar í Ansbach í Þýskalandi í júlí. 

Um jólin var myndin af Modimani notuð við lygafærslu á Facebook þar sem sagt var að hann tilheyrði hópi sem kveikti í heimilislausum manni á lestarstöð í Berlín þar sem maðurinn svaf. Hópurinn, sex sýrlenskir hælisleitendur og einn frá Líbíu, gáfu sig síðar fram við lögreglu.

Í annarri færslu er búið að breyta myndinni og þau sett inn á mynd með flutningabílnum sem notaður var í hryðjuverkaárásinni á jólamarkað í Berlín. 

Lögmaður Modamami, Chan-jo Jun, segir í samtali við Guardian að í hvert skipti sem eitthvað gerist sem tengist flóttafólki þá sé myndin af honum notuð - táknmynd fyrir stefnu Merkel í málefnum flóttafólks. Hann bendir á að sennilega sjái 25-50 þúsund manns þessar færslur og ummælin langt frá því að vera eðlileg. Til að mynda: „Það ætti frekar að kveikja í þeim.“

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert