Banna umferð díselbifreiða

AFP

Borgaryfirvöld í Ósló hafa ákveðið að banna umferð díselbifreiða í að minnsta kosti tvo daga í þessari viku. Um er að ræða aðgerðir til að berjast gegn loftmengun. Tilkynnt var um bannið í gær en það hefur vakið nokkra reiði þar sem íbúar voru bókstaflega hvattir til að kaupa díselbíla fyrir um tíu árum.

Bannið tekur gildi á þriðjudag og nær til allra minni gatna en öll umferð verður áfram heimil á þjóðvegum sem liggja gegnum borgina. Gert er ráð fyrir að veðurskilyrði verði hagstæðari á fimmtudag.

Þeir sem brjóta bannið geta átt von á sekt upp á 1.500 norskar krónur, sem jafngildir 20.000 íslenskum krónum.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem borgaryfirvöld í Ósló grípa til úrræðis af þessu tagi eftir að borgarráð samþykkti að heimila þau.

„Í Ósló getum við ekki beðið börn, eldra fólk og þá sem þjást af öndunarfærasjúkdómum að halda sig heima fyrir af því að það er of hættulegt að anda,“ sagði Lan Marie Nguyen Berg, borgarfulltrúi Græningja, í samtali við norska miðla.

Árið 2006 hvöttu stjórnvöld Norðmenn til að kaupa heldur díselbíla en bensínbíla, þar sem fyrrnefndu væru umhverfisvænni. Margir eru reiðir vegna þróunar mála, þar sem sú ákvörðun að fylgja eftir ábendingum stjórnvalda þá virðist vera að koma í bakið á mönnum nú.

Díselbifreiðar losa sannarlega minna af koldíoxíði en bensínbifreiðar, en meira af nítri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert