Náðu byssumanni árásarinnar í Istanbúl

Tyrkneska Dogan-fréttastofan birti í dag þessa mynd af manninum sem …
Tyrkneska Dogan-fréttastofan birti í dag þessa mynd af manninum sem grunaður er um að hafa staðið að árásinni, eftir að hann var kominn í hendur lögreglu. AFP

Tyrkneska lögreglan handtók í dag árásarmanninn sem skaut 39 manns til bana í næturklúbbi í Istanbúl á gamlárskvöld.

Tyrkneska ríkissjónvarpsstöðin TRT greindi frá því að árásarmaðurinn Abdulkadir Masharipov hefði fundist ásamt fjögurra ára syni sínum í íbúð í Esenyurt-hverfinu í Istanbúl eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu og tyrknesku leyniþjónustunnar.

Tyrkneska fréttastofan Dogan birti í kvöld myndir af blóðugum manni og sögðu hana sýna árásarmanninn í haldi lögreglu.

Hann hafði farið huldu höfði í tvær vikur, en miklar vangaveltur voru búnar að vera uppi um hvort hann hefði náð að komast úr borginni.

Masharipov er talinn hafa staðið fyrir árásinni sem varð 39 manns í Reina-næturklúbbinum að bana. Meðal þeirra sem létust var fólk frá Ísrael, Frakklandi, Túnis, Líbanon, Indlandi, Belgíu, Jórdaníu og Sádi-Arabíu.

Byssumaðurinn kom með leigubíl í næturklúbbinn snemma nætur. Hann tók því næst byssu úr skotti bílsins og réðst inn í klúbbinn.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni og sögðu hana hefnd fyrir þátttöku Tyrkja í Sýrlandsstríðinu.

Reuters-fréttastofan segir fréttir af handtökunni óstaðfestar, en hefur eftir tyrkneska dagblaðinu Hurriyet að maðurinn sem hafi farið huldu höfði undir nafninu Ebu Muhammed Horsani hafi verið handtekinn ásamt syni sínum í evrópska hluta borgarinnar.

Tugir manns hafa til þessa verið hnepptir í varðhald í tengslum við leitina að árásarmanninum.

Lögreglumaður á vakt við skemmtistaðinn Reina í Istanbúl.
Lögreglumaður á vakt við skemmtistaðinn Reina í Istanbúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert