Játar árás í næturklúbbi

AFP

Maðurinn, sem var handtekinn í gær grunaður um að hafa skotið 39 manns til bana og sært um 70 á Reina-næturklúbbnum í Istanbúl í Tyrklandi á gamlárskvöld, hefur játað að sögn lögreglu.

Borgarstjórinn í Istanbúl, Vasip Sahin, staðfestir þetta á fundi með blaðamönnum. „Hryðjuverkamaðurinn hefur játað glæp sinn,“ sagði Sahin.

Abdulkadir Masharipov.
Abdulkadir Masharipov. AFP

Tyrkneska lögreglan handtók í gærkvöldi Abdulkadir Masharipov, karlmann frá Úsbekistan, og staðfesti Sahin í morgun.

Masharipov var handsamaður á heimili vinar síns í Esenyurt, sem er úthverfi Istanbúl. Með honum í íbúðinni var fjögurra ára gamall sonur hans. Fram kom í gærkvöldi að Masharipov er félagi í þeim armi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams sem starfar í miðhluta Asíu.

Áður hafði Ríki íslams lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér. Lýstu samtökin því yfir að með henni hefðu þau verið að hefna fyrir hlutdeild Tyrkja í stríðinu í Sýrlandi. Það var í fyrsta skiptið sem samtökin viðurkenndu aðild að umfangsmiklu hryðjuverki í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert