Áreitti opinbera starfsmenn og hótaði

AFP

Kulwant Singh Sandhu, 56 ára, var í gær fundinn sekur um að áreita opinbera starfsmenn í Washington, með meira en 3.000 símtölum þar sem hann hafði í hótunum við fólkið og notaði miður fallegan munnsöfnuð.

Starfsmennirnir sem um ræðir vinna fyrir bandarísku verðbréfa- og kaupþingsnefndina.

Sandhu skildi eftir a.m.k. 350 löng skilaboð í talhólfum starfsmanna nefndarinnar en auk þess að áreita þá, hringdi hann í annan óskyldan aðila mörg hundruð sinnum frá 2012.

Að sögn ákæruvaldsins sagði Sandhu m.a. að safna ætti starfsmönnum verðbréfa- og kaupþingsnefndarinnar saman, hengja þá, beita þá vatnspyntingum, brenna þá lifandi og skjóta þá.

Hann á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi og 250.000 dala sekt.

Það liggur ekki fyrir hvað Sandhu gekk til með áreitninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert