„Dásamlegur dagur“ segir Trump

Donald Trump forseti Bandaríkjanna beið ekki lengi með að hefjast handa við forsetastörfin eftir að hann var svarinn í embætti í gær. Rúmum klukkutíma eftir innsetningarathöfnina hóf hann að undirrita opinberar tilskipanir sem m.a. beinast gegn umbótum forvera hans í embætti í heilbrigðismálum.

Yfirlýsing Trump fyrirskipar ríkisstofnunum að létta á efnahagslegri byrði af Obamacare, eins og heilbrigðistryggingakerfið sem Barack Obama fráfarandi forseti kom á í valdatíð sinni hefur verið kallað. Ekki er þó nánar farið út í hvernig það eigi að vera gert.

Í innsetningarræðu sinni í gær hét Trump því að setja Bandaríkin í fyrsta sæti og að binda endi á „bandaríska blóðbaðið“ sem feli í sér yfirgefnar verksmiðjur og stjórnlaust ofbeldi.  

Starfsfólk Trump var líka fljótt að breyta vefsvæði Hvíta hússins og eftir embættistökuna mátti þar m.a. finna loforð um að snúa frá stefnu Obama í loftslagsmálum. Á vefsvæðinu er að finna sex málefni sem nýja stjórnin ætlar að beita sér fyrir og eru það orkumál, utanríkismál, atvinnumál, hagvöxtur, herinn, löggæsla og viðskiptasamningar.

Fréttavefur BBC segir gagnrýnendur hafa bent á að þar sé ekkert minnst á mannréttindi, réttindi hinsegin fólks, eða heilbrigðis- og loftslagsmál.

Trump beið heldur ekki boðanna að senda öldungadeildinni ráðherratilnefningar sínar, auk þess sem hann undirritað sérstaka undanþágu sem gerir James Mattis kleift að taka við embætti varnarmálaráðherra, þrátt fyrir að sjö ár séu frá því að Mattis fór á eftirlaun.

Þá undirritaði nýi forsetinn opinbera tilskipun um að komið yrði á sérstökum degi tileinkuðum föðurlandsást.

Spurður um fyrsta daginn í forsetahlutverkinu sagði Trump: „Það var mikið að gera, en það var gott – þetta var dásamlegur dagur.“

Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump stigu dans á …
Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump stigu dans á Frelsisdansleiknum sem haldinn var í tilefni af innsetningu Trump í embætti Bandaríkjaforseta. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert