Ferðalag um veröld heimilislausra

Barbara leiðir fólk í sannleikann um þann veruleika sem blasir …
Barbara leiðir fólk í sannleikann um þann veruleika sem blasir við heimilislausu fólki í Vín. AFP

Það er napur eftirmiðdagur og ferðamennirnir standa þétt í hóp fyrir utan aðallestarstöðina í Vínarborg. Túristarnir eru á leið í skoðunarferð en það eru þó ekki mikilfenglegar hallir eða minnisvarðar sem bíða þeirra og leiðsögumannsins Barböru, heldur súpueldhús og gistiskýli.

Um er að ræða átak til að hjálpa heimilislausu fólki á borð við Barböru að fóta sig aftur í lífinu en þrátt fyrir að Vín sé meðal þeirra borga heims þar sem lífsskilyrði eru einna best, hafa þúsundir fallið gegnum glufurnar í velferðarkerfinu.

Samkvæmt opinberum tölum lenda 4.300 á götunni á hverju ári en hinn raunverulegi fjöldi er talinn vera mun meiri. Það er erfitt að ímynda sér að Barbara, með fallegt flæðandi hár og klædd kremlitri úlpu, sé ein af þeim.

Barbara, sem var eigandi listagallerís, greindist með brjóstakrabbamein árið 2014 og missti lífsviðurværi sitt og íbúð þegar hún gekkst undir lyfjameðferð við sjúkdómnum. Eftir nokkra mánuði á götunni fékk hún úthlutað rúmi í gistiskýli.

„Ég er glöð af því að hárið mitt er aftur orðið sítt og ég er fullkomlega heilbrigð,“ segir Barbara við ferðafólkið. „Ég hef fulla trú á því að ég muni aftur eignast eigið heimili, ekki síst vegna þessa,“ bætir hún við og vísar til nýja starfsins hjá Shades Tours.

Barbara átti listagallerí en tapaði öllu þegar hún greindist með …
Barbara átti listagallerí en tapaði öllu þegar hún greindist með brjóstakrabbamein og gekkst undir lyfjameðferð. AFP

Shades Tours er nýsköpunarverkefni þar sem fetað er í fótspor annarra áþekkra verkefna í Evrópu. Verkefnin eiga það sameiginlegt að miða að því að ráða heimilislausa og þurfandi sem leiðsögumenn til að hjálpa þeim að komast aftur út í samfélagið.

Í París fer leiðsögufólkið með ferðamenn að minnisvörðum og á sögufræga staði en í Vín hefur verkefnið verið tekið skrefinu lengra og miðar öðrum þræði að því að vinda ofan af fordómum gegn heimilislausum.

„Ég vildi að ferðirnar yrðu meira fræðandi,“ segir Perrine Schober, 33 ára stofnandi Shades Tours. „Við sjáum heimilislausa á hverjum degi en við höfum ekki hugmynd um hvað heimilisleysi snýst og ég held að það sé ástæða þess að fólk lítur undan í stað þess að reyna að hjálpa.“

Einstök innsýn

Upphaflega var markhópur Shades Tours Austurríkismenn og meðal þeirra sem fóru ferðir með fyrirtækinu árið 2016 voru hundruð skólabarna, félagsráðgjafar og fyrirtæki. Á boðstólnum eru margs konar ferðir sem kosta frá 15 evrum og taka frá tveimur klukkustundum og upp í heilan dag.

„Leiðsögufólkið okkar er í einstakri aðstöðu til að útskýra flókið félagslegt kerfi Vínarborgar og áskoranir þess. Þau veita börnunum fræðslu sem þau fá ekki í kennslustofunni,“ segir Schober.

Vín laðar til sín heimilislausa frá öðrum borgum Evrópu, t.d. …
Vín laðar til sín heimilislausa frá öðrum borgum Evrópu, t.d. Búdapest, þar sem ástandið er enn verra. AFP

Á meðan heimsóknunum stendur gefst „ferðalöngunum“ kostur á að spyrja spurninga og hinir heimilislausu eru oftar en ekki tilbúnir til að deila reynslusögu sinni. „Spyrjið hvers sem þið viljið, það er ekkert tabú, við getum talað opinskátt,“ segir Barbara.

Shades Tours hefur nú þrjá leiðsögumenn í fullri vinnu og tveir þeirra hafa getað flutt úr gistiskýlinu þar sem þeir dvöldu og í einkahúsnæði. Schober hóf nýlega að bjóða upp á ferðir á ensku fyrir erlenda ferðamenn.

„Ég vildi fá innsýn í veröld heimilislausra því við mætum þeim án þess að skilja hvernig þetta er,“ segir hin 29 ára Steliana Kokonova frá Búlgaríu.

Barbara, sem neitar að gefa upp eftirnafn sitt, skiptir vandræðalaust á milli þýsku, ensku og frönsku á meðan hún útskýrir af hverju aðallestarstöðin er vinsæl meðal heimilislausra.

„Hér er hlýtt, opið 24 klukkustundir sólahringsins og þú getur verið nafnlaus,“ segir hún við ferðafólkið þegar inn er komið.

Margtyngdir félagsráðgjafar, íklæddir rauðum jökkum, fara um stöðina og afhenda heimilislausum upplýsingabæklinga um hvar þeir geta leitað aðstoðar.

Barbara og hópurinn hennar heimsækir gistiskýli fyrir heimilislausa.
Barbara og hópurinn hennar heimsækir gistiskýli fyrir heimilislausa. AFP

„Hvað er það versta við að vera heimilislaus?“ spyr einn ferðamannanna Barböru.

Einangrunin, svarar Barbara. „Enginn sem var hluti af gamla lífinu mínu veit hvar ég er núna og ég á enga fjölskyldu.“

Segull fyrir erlenda heimilislausa

Í Vín búa 1,7 milljónir íbúa og þar er að finna net opinberra stofnana og góðgerðarsamtaka sem starfa í þágu þeirra sem minna mega sín.

Barbara og hópurinn hennar halda út í nístandi kaldan vindinn að svokallaðri P7-byggingu, þar sem sú stofnun er til húsa sem heldur skrá yfir heimilislausa. Þar er einnig að finna húsaskjól fyrir þurfandi.

Gistiskýlið í P7 hefur upp á að bjóða 300 rúm allan ársins hring en á veturna er 700 rúmum bætt við til að tryggja að enginn verði úti. Þetta dugir hins vegar ekki til að mæta eftirspurninni þar sem Vín laðar að sér heimilislausa frá öðrum borgum Evrópu, t.d. Búdapest, þar sem ástandið er verra.

Hjá VinziPort-skýlinu geta heimilislausir karlmenn keypt sér gistingu, máltíð, sturtu …
Hjá VinziPort-skýlinu geta heimilislausir karlmenn keypt sér gistingu, máltíð, sturtu og netaðgang fyrir tvær evrur. AFP

Hjá VinziPort-skýlinu, síðasta viðkomustað Barböru og ferðafólksins, fá karlmenn gistingu eina nótt, máltíð, sturtu og netaðgang fyrir tvær evrur.

„Allir hjálpast að,“ segir Schober. „Maturinn kemur frá leikskólanum við hliðina, sjúkrahúsum og bakaríum.“

Þegar ferðinni um borgina lýkur þakka þátttakendur Barböru fyrir að deila sögu sinni, þeirra á meðal Kokonova.

„Eitt stórt atriði sem verður áfram með mér er að nú höfum við meiri vitneskju um það hvernig við getum vísað heimilislausum á hjálplegar stofnanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert