Neyddu piltinn til að drekka klósettvatn

Sam­sett mynd af fólk­inu sem réðst á pilt­inn. An­is­hia Covingt­on, …
Sam­sett mynd af fólk­inu sem réðst á pilt­inn. An­is­hia Covingt­on, Jor­d­an Hill, Tes­faye Cooper og Britt­any Covingt­on. /AFP

Bandarísku ung­mennin fjögur, sem ákærð eru fyr­ir að hafa rænt and­lega fötluðum 18 ára pilti og pyntað hann í beinni út­send­ingu á Face­book, neita alfarið sök.

Þau Jor­d­an Hill og Tes­faye Cooper, 18 ára, Britt­any Covingt­on 19 ára og Tan­is­hia Covingt­on 24 ára, komu fyr­ir dóm­ara í Chicago í gær en öll segjast þau saklaus. Þau eru m.a. ákærð fyrir hatursglæpi, mannrán, ólögmæta nauðung og líkamsárás. Öll hafa þau setið í gæsluvarðhaldi síðan þau voru handtekin þann 3. janúar.

Er þeim meðal annars gert að sök að hafa haldið piltinum bundnum í fjórar til fimm klukkustundir, troðið sokk í munn hans og límt fyrir en að sögn lögreglu neyddu þau piltinn einnig til að drekka klósettvatn.

Talsvert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum og hefur það vakið mikla reiði í Bandaríkjunum og víðar en fjölskylda piltsins segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi meðal almennings í kjölfar málsins. Að sögn lögreglu þekkti fórnarlambið minnst eitt hinna ákærðu, Jordan Hill. Þeir hafi hist á veitingahúsi McDonalds í úthverfi Chicago-borgar í desember.

Hill er sagður hafa sótt piltinn og tekið hann með sér upp í stolinn sendiferðabíl. Foreldrar piltsins hafi tilkynnt að hans væri saknað en á sama tíma hafi Hill ekið um með piltinn, heimsótt vini og þeir gist í sendiferðabílnum í tvo daga.

Þann 3. janúar hafi svo átök brotist út í íbúð Covington systranna og var myndbandi af ofbeldinu deilt á Facebook.

Í myndbandinu heyrast fjórmenningarnir gera athugasemdir við „hvítt fólk,“ og lét a.m.k. eitt ungmennanna ljót orð falla um Donald Trump, þá verðandi forseta Bandaríkjanna. Pilturinn er hvítur á hörund en lögregla kveðst þó ekki vita hvort hann sé stuðningsmaður Trump.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert