Skoða leiðir til að „bjarga“ ferðabanni Trump

Ferðabanninu hefur verið harðlega mótmælt síðan Trump gaf út tilskipun …
Ferðabanninu hefur verið harðlega mótmælt síðan Trump gaf út tilskipun um bannið fyrir tveimur vikum. /AFP

Embættismenn Hvíta hússins skoða nú nokkrar mögulegar leiðir að „bjarga“ umdeildri forsetatilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem meinar fólki frá sjö múslimaríkjum að koma til Bandaríkjanna.

Í kjölfar ákvörðunar áfrýjunardómstóls, sem sló tilskipuninni tímabundið á frest, lýsti Trump því yfir að hann muni halda áfram að berjast fyrir framgöngu málsins auk þess sem hann muni svipta hulunni af nýjum öryggisaðgerðum í næstu viku.  

„Við munum gera allt sem til þarf til að tryggja öryggi landsins,“ sagði Trump á blaðamannafundi í dag þar sem hann ræddi við fréttamenn ásamt Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan. „Við gerum eitthvað mjög fljótt sem varðar auknar öryggisráðstafanir í landinu. Það mun koma í ljós í næstu viku.“

Hvíta húsið vinnur nú að „mögulegum viðsnúningi,“ vegna forsetatilskipunarinnar samkvæmt heimildarmanni CNN sem hefur náin tengsl við Hvíta húsið hvað varðar þjóðaröryggismál. Annar möguleiki sem kemur til greina er að endurskrifa og gefa út nýja tilskipun um bannið samkvæmt öðrum heimildarmanni CNN.

Ný tilskipun þess efnis yrði nákvæmari í sniðum en sú sem Trump gaf út fyrir tveimur vikum en til að mynda yrði kveðið á um að bannið næði ekki yfir það fólk sem hefur löggilt dvalarleyfi í landinu. Herma heimildir að áform séu um að gefa út nýja eða endurskoðaða tilskipun en ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum.

Forsetinn staðfesti þá nú í kvöld að hann væri hættur við að fara með ferðabannið fyrir hæstarétt. Hann væri þess í stað að skoða aðrar leiðir til að komast hjá lagahindrunum.

Hann fullyrti að lögin væru sín megin, en að áhyggjur af öryggismálum gætu krafist sneggri viðbragða en málaferli fela í sér.

„Það er óheppilegt að þetta tekur tíma lagalega séð, en við munum vinna þennan slag. Við höfum líka fjölda annarra valkosta, meðal annars að leggja fram glænýja tilskipun,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Trump, sem kvað slíkra aðgerða þó ekki að vænta fyrr en í næstu viku.

Donald Trump.
Donald Trump. /AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert