Ástarsamband sem endar aldrei illa

Kona leikur sér með sýndarelskhugann.
Kona leikur sér með sýndarelskhugann. AFP

Japanski ritstjórinn Miho Takeshita er að halda fram hjá. En hin nýgifta 30 ára Takeshita hefur engar áhyggjur af því að það komist upp um hana; kærastinn hennar býr í snjallsímanum hennar. Takeshita er einn af fjölmörgum aðdáendum rómantískra hermileikja, sem njóta gríðarlegra vinsælda meðal japanskra kvenna.

„Þetta er ávanabindandi,“ segir Takeshita. „Jafnvel þótt persónurnar séu ekki raunverulegar ferðu að bera tilfinningar til þeirra.“

Það er heila málið, segir leikjaframleiðandinn Natsuko Asaki. Hann starfar hjá fyrirtækinu Cybird sem framleiðir leikjaseríuna Ikemen. Ikemen er japanskt hugtak yfir myndarlega menn.

„Sagan er mikilvægust, sem og persónurnar og hvernig mál þróast,“ segir Asaki.

Ikemen-smáforritinu hefur verið niðurhalað 15 milljón sinnum frá því að það kom á markaðinn fyrir um fimm árum. Þá hefur Cybird einnig gefið út enska útgáfu.

Samkvæmt Yano-rannsóknarstofnuninni í Tókýó nemur sá iðnaður sem gerir út á rómantíska snjallsímaleiki um 135 milljónum dala á ári í Japan.

Um 80% spilara, þeirra á meðal vaxandi fjöldi giftra kvenna, spila leikinn rétt áður en þeir fara að sofa.

Leikirnir byggja ekki á flóknum algóriþmum. Þess í stað velja spilarar á milli nokkurra valmöguleika á hinum ýmsu stöðum í söguþræðinum og hafa þannig um það að segja hvernig ástarsamband þeirra við hin stafrænu myndarmenni þróast.

Gagnvirk auglýsing fyrir Ikemen, sem hefur verið niðurhalað 15 milljón …
Gagnvirk auglýsing fyrir Ikemen, sem hefur verið niðurhalað 15 milljón sinnum. AFP

Takeshita segist ekki þykja neitt athugavert við það að daðra við símaelskhugana. Þvert á móti séu þeir alltaf til taks, ólíkt eiginmanninum í raunheimum.

Asaki segir leikina snerta á hinu kynferðislega en ekki á þann grófa hátt sem þekkist í leikjum sem eru markaðssettir fyrir karlmenn.

„Þetta er hin fullkomna ástarsaga; það eru engir kvenkyns keppinautar eða sorgleg málalok.“

Nærir blekkinguna

Það kann að vera að velgengni leikjanna megi rekja til stefnumótamenningarinnar í Japan, þar sem ætlast er til þess að karlmaðurinn sé við stjórnvölinn.

„Það þykir ekki við hæfi þegar japönsk kona tekur fyrsta skrefið,“ segir Ai Aizawa, hjónabandsráðgjafi fyrir All About-ráðgjafasíðuna.

Og jafnvel þær konur sem finna sálufélaga sinn eru oft ekki fullnægðar þegar kemur að rómantíkinni.

„Þær fá útrás í þessum hermileikjum; stað þar sem þær eru ekki sviknar og þar sem fullkomin ást og hinn fullkomni ástmaður næra blekkinguna,“ segir Aizawa.

Í sumum leikjum, á borð við Tokimeki kareshi (tilfnningafélaginn) og Sumakare (snjallsímafélaginn), geta notendur skiptst á textaskilaboðum við hinn stafræna kærasta.

En felur leikjanotkunin í sér einhverjar áhættur?

„Að verða fíkill,“ segir ein kona sem kýs að vera nafnlaus.

„Þú færð jafnvel samviskubit ef þú spilar ekki reglulega; það er dálítið hættulegt fyrir táningsstúlkur sem eru enn óþroskaðar.“

Sýndarelskhuginn er alltaf til staðar, ólíkt eiginmanninum.
Sýndarelskhuginn er alltaf til staðar, ólíkt eiginmanninum. AFP

Könnun sem framkvæmd var af Meiji Yasuda Life Foundation of Health and Welfare bendir til þess að hinir rómantísku leikir séu ein af ástæðum þess að japönsk ungmenni eru að missa áhugann á því að finna sér maka.

„Sambandið sem á sér ekki stað í raunveruleikanum á sér stað á fullkominn hátt í leiknum, sem getur leitt til þess að fólk hættir að leita að ástinni. Að minnsta kosti tímabundið,“ segir Aizawa.

En á sama tíma og manneskjan virðist geta þróað með sér tilfinningar til stafræns maka er óvíst hvort þær tilfinningar verða nokkurn tímann endurgoldnar.

„Karlkyns eða kvenkyns líkami er ekki lengur það sem einkennir manneskju,“ segir róbótahönnuðurinn Hiroshi Ishiguro við Osaka-háskólann.

„Það er vel mögulega hugsanlegt að maður geti elskað róbóta eða sýndarelskuga,“ segir hann. „Spurningin er hins vegar hvort þeir munu einhvern tímann geta elskað manneskju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert