Atvinnuleysi og fátækt plaga Kosovo

Kona betlar á götunni í Pristina. Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans hefur …
Kona betlar á götunni í Pristina. Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans hefur atvinnuleysi verið 42% að meðaltali síðustu fjögur ár. AFP

Á morgun verður Kosovo, yngsta ríki Evrópu, níu ára. Hinn 24 ára Nazim Ahmeti er hins vegar ekki í skapi til að fagna. „Dag eftir dag verð ég að berjast fyrir því að sjá börnum mínum og eigikonu fyrir brauði,“ segir Ahmeti, sem er meðal þeirra 60% ungs fólks sem er atvinnulaust í Balkanríkinu.

Þegar birtir af degi stendur Ahmeti ásamt mörgum öðrum í röð fyrir utan grænmetismarkaðinn í Pristina, í von um að fá vinnu þann daginn. Biðinn er oftar en ekki löng og köld. Fyrir dagsverkið fær hann greiddar um 15 evrur; 1.700 krónur.

Kosovo lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 og hefur síðan verið viðurkennt sem sjálfstætt ríki af 110 löndum, þeirra á meðal Íslandi, þrátt fyrir hörð mótmæli stjórnvalda í Belgrad.

Landið ber hins vegar ör fátæktar og spillingar.

Samkvæmt opinberum tölum nam atvinnuleysi í Kosovo 26% á síðasta ári. Margir telja hlutfallið gróflega vanmetið. Samkvæmt tölum Alþjóðabankans hefur atvinnuleysi í landinu verið 42,6% að meðaltali síðustu fjögur ár.

Þriðjungur 1,8 milljón íbúa Kosovo lifa undir fátæktarmörkum og meðalmánaðarlaun eru 360 evrur; 42.000 krónur, minna en fjórðungur meðalmánaðarlauna innan Evrópusambandsins, sem Kosovo vonast til að verða hluti af.

Um 13.500 féllu í átökum milli serbneskra öryggissveita og skæruliða úr röðum Kosovo Albana á árunum 1998-1999. Flestir látnu voru Albanar en átökin enduðu með inngripi Atlantshafsbandalagsins.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er 60% og margir horfa til …
Atvinnuleysi meðal ungs fólks er 60% og margir horfa til þess að flytja til annarra Evrópuríkja. Íbúafjöldi Kosovo hefur minnkað umtalsvert frá því að ríkið lýsti yfir sjálfstæði 2008. AFP

Fjöldaflutningar

Því telja sérfræðingar að róttæk íslamstrú sé ekki það eina sem hefur gert það að verkum að um 300 Kosovo Albanar hafa gengið til liðs við jíhadista í Sýrlandi og Írak. Sama fátæktin og skortur á efnahagslegum bata hefur einnig rekið ungmenni til að flytjast til vesturhluta Evrópu, oftar ólöglega en löglega.

Íbúafjöldi Kosovo hefur raunar dregist saman úr 2,1 milljónum árið 2008 í 1,87 milljón og í landinu hefur verið til umræðu að grípa til aðgerða til að freista þess að auðvelda för íbúa til ríkja Evrópusambandsins.

„Horfðu á andlitin. Þú sérð ekki eitt einasta bros,“ segir stjórnmálagreinandinn Ramush Tahiri og bendir á hóp af ungmennum á stærsta torgi Pristina. „Engir drauma þeirra hafa ræst,“ segir hann.

Kosovo verður að búa til efnahagslegan hvata til að fá fólk til að vera um kyrrt, til að koma í veg fyrir félagslega og aðrar krísur sem gera það að verkum að þau leita lausna utan Kosovo, segir forsætisráðherrann Isa Mustafa í samtali við AFP.

Hann segir að ríkisstjórninn sé að gera allt sem hún getur til að laða að erlenda fjárfestingu.

Samkvæmt ritstjórnargrein í dagblaðinu Koha Ditore hefur stjórnvöldum hins vegar mistekist að mæta væntingum unga fólksins. Að bæta samskiptin við Serbíu virðist nauðsynlegt.

Viðræður milli ríkjanna hafa staðið yfir frá 2011 og þokast áfram þrátt fyrir einstaka upphlaup.

Kosovo verður níu ára á morgun. Það eru þó ekki …
Kosovo verður níu ára á morgun. Það eru þó ekki allir sem sjá tilefni til að gleðjast, enda virðast vonir þeirra og væntingar hafa orðið að engu. AFP

Landlæg spilling

Þrátt fyrir stirð samskipti hafa viðskiptatengslin milli Kosovobúa og Serba aldrei rofnað. Að undanskildu umfangsmiklu smygli flutti Serbía vörur fyrir um 400 milljónir evra út til Kosovo árið 2016, aðallega matvæli, á meðan Kosovo flutti vörur fyrir um 40 milljónir evra út til Serbíu.

Eitt af því sem hamlar efnahagslegum bata er landlæg spilling. Kosovo er í 95. sæti af 175 á lista Transparency International yfir spillingu í ríkjum heims árið 2016. Zahir Bajrami, yfirmaður fjármálaskrifstofu ríkisstjórnarinnar, var nýlega látinn víkja vegna gruns um spillingu.

Hagfræðingurinn Mehmet Gjata segir Kosovo ekki geta orðið „starfhæft“ ríki án þess að þróast efnahagslega þannig að það sé í stakk búið til að takast á við atvinnuleysið og fátæktina, tvær af stærstu áskorununum sem blasa við.

„Sú staðreynd að elítan er óvenjulega rík sýnir að efnahagsleg þróun hefur ekki verið forgangsverkefni þeirra,“ segir Gjata.

En Ahmeti getur ekki falið brostnar vonir sínar.

„Ég hélt ekki að sjálfstætt Kosovo yrði að Bandaríkjunum á einni nóttu. En ég vænti þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að geta fætt fjölskylduna mína.“

Maður selur þjóðbúninga í Pristina.
Maður selur þjóðbúninga í Pristina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert