Höfnuðu biskupaskýrslu um samkynhneigð

Mótmælendur stilltu sér upp fyrir framan húsnæðið þar sem prestastefnan …
Mótmælendur stilltu sér upp fyrir framan húsnæðið þar sem prestastefnan fór fram og hvöttu til þess að skýrslunni yrði hafnað. AFP

Enska biskupakirkjan stendur enn á krossgötum eftir að prestastefna sem nú stendur yfir hafnaði skýrslu biskupa kirkjunnar um afstöðu hennar til samkynja hjónabanda. Kirkjan er þverklofin í málinu en atkvæði féllu þannig að 100 sögðu nei við skýrslunni en 93 já.

Meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti skýrslunni voru þeir sem styðja samkynja hjónabönd og þeir sem telja samkynhneigð synd. Í skýrslunni er hjónabandið skilgreint sem heilagt samband karls og konu en opnað á frjálslega túlkun fyrir samkynja pör og kveðið á um „ferskan tón“ og góðar móttökur og stuðning við samkynhneigða.

Höfnun prestastefnunnar þykir áfall fyrir Justin Welby, erkibiskupinn af Canterbury, sem biðlaði til stefnunnar um að samþykkja skýrsluna sem grundvöll til að þoka málum áfram.

Welby er yfir biskupadeildinni, sem hefur fundað fjórum sinnum til að freista þess að miðla málum milli ólíkra sjónarmiða innan kirkjunnar varðandi samkynhneigða.

Fjölmargir tjáðu sig um skýrsluna á prestastefnunni og ljóst þykir …
Fjölmargir tjáðu sig um skýrsluna á prestastefnunni og ljóst þykir að málið hefur langt í frá verið leitt til lykta. AFP

Eins og sakir standa mega samkynhneigðir prestar kirkjunnar hvorki ganga í hjónaband né eiga í kynferðislegum samböndum. Þá eru hjónavígslur samkynja para bannaðar innan kirkjunnar.

Margir tóku til máls á prestastefnunni og voru biskuparnir m.a. sakaðir um að „höndla“ málið í stað þess að leiða, af ótta við að skapa sundrung.

„Utan þessara veggja þykir okkur skorta ást,“ sagði Lucy Gorman frá York. Hún sagði engan undra að unga fólkið vildi ekki ganga til liðs við kirkjuna. „Af hverju ætti fólk að verða hluti af kirkju sem virðist hómófóbísk?“

En meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti skýrslunni voru einnig þeir sem eru á öndverðum meiði. „Öll kynferðisleg tjáning utan varanlegs sambands karls og konu er synd,“ sagði Andrea Minichiello-Williams frá Chichester.

Welby sagði áskorun kirkjunnar að takast á við það ósamkomulag sem ríkti innan hennar. Kirkjan mætti hvorki vera kærulaus gagnvart trúnni né hunsa umheiminn.

Niðurstaðan þykir áfall fyrir Justin Welby, erkibiskupinn af Canterbury, sem …
Niðurstaðan þykir áfall fyrir Justin Welby, erkibiskupinn af Canterbury, sem hefur freistað þess að miðla málum milli hinna stríðandi fylkinga. AFP

Biskuparnir sem fóru fyrir skýrslusmíðunum hafa beðið gagnrýnendur hennar afsökunar og lýst eftirsjá vegna þeirra sárinda eða reiði sem hún kann að hafa valdið.

Pete Broadbent, biskupinn af Willesden, viðurkenndi að skjalið væri íhaldssamt. „Ég vil biðja þá afsökunar sem hefur þótt skýrslan okkar erfið, sem hafa ekki fundið sjálfa sig í henni, sem væntu meira af okkur en við stóðum undir, fyrir tón skýrslunnar.“

Það eina sem hinar stríðandi fylkingar virðast vera sammála um er að leiðin fram undan er enn óljós og meiri umræðu þörf.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert