Óttast fangelsun og alræðisstjórn

Asli Erdogan ræðir við fjölmiðla eftir að henni var sleppt …
Asli Erdogan ræðir við fjölmiðla eftir að henni var sleppt úr haldi í desember. AFP

Tyrneski skáldsagnahöfundurinn Asli Erdogan lifir enn undir „skugga fangelsisins“ þar sem hún dvaldi í fjóra mánuði. Hún óttast að verða send þangað aftur en neitar að láta þagga niður í sér. Þá hafnar hún því að yfirgefa heimaland sitt fyrir þægilega útlegð erlendis, þrátt fyrir að verða mögulega dæmd í lífstíðarfangelsi.

Erdogan, 49 ára, var sleppt úr fangelsi í desember þar sem henni var haldið í 132 daga. Yfirvöld hafa sakað hana um að hvetja til hryðjuverka en ákærurnar á hendur henni eru þáttur í rannsókn á dagblaðinu Ozgur Gundem, sem nú hefur verið lokað.

Stjórnvöld sögðu blaðið málpípu hins útlæga Verkamannaflokks Kúrdistan (PKK).

Handtaka Erdogan vakti alþjóðlega fordæmingu en gagnrýnendur segja tjáningarfrelsið hafa verið fótum troðið frá því að stjórnvöld gripu til harkalegra aðgerða gegn menntamönnum og fleirum í kjölfar valdaránstilraunarinnar í júlí.

„Að sjálfsögðu er ég hrædd [...]. Martröðin gæti hafist aftur hvenær sem er,“ sagði Erdogan í samtali við AFP í Istanbul. Hún viðurkenndi að héðan í frá yrði óttinn við að vera hneppt í fangelsi hluti af lífi hennar.

Jafnvel þótt henni hafi verið sleppt á Erdogan enn yfir höfði sér lífstíðarfangelsi vegna ákæranna. Hún þarf næst að mæta fyrir rétt 14. mars.

Erdogan, sem er óskyld forsetanum Recep Tayyip Erdogan, segist hins vegar ekki hafa íhugað að yfirgefa Tyrkland. „Mér finnst útlegð annað form fangelsunar. Ég myndi ekki vilja lifa í útlegð, sama við hvaða aðstæður og í hvaða landi.“

Erdogan segist enn fremur vera rithöfundur á tyrnesku og að hún þurfi að dvelja í Tyrklandi til að viðhalda valdi sínu yfir tungumálinu.

Asli Erdogan óttast að Tyrkja bíði 10 til 20 ára …
Asli Erdogan óttast að Tyrkja bíði 10 til 20 ára alræðisstjórn. AFP

Þrátt fyrir bitra reynslu finnur hún sig knúna til að segja sögu sína.

„Ég verð að segja umheiminum hversu ósanngjörn og Kafka-lík þessi réttarhöld eru. Mér finnst ég í raun öruggari með því að sýna fram á hversu ótrúlegar ásakanirnar eru.“

Öðlaðist þolinmæði

Fangelsið var, segir Erdogan, eins og „kaldur brunnur“ með ókleifum veggjum og of lítilli birtu.

„Ímyndaðu þér stað þar sem þú vilt ekki dvelja tvær mínútur. Það getur verið afar skítugt salerni á bar. Þú gengur inn og fyllist viðbjóði,“ segir hún.

Rithöfundurinn einsetti sér að halda huganum virkum og verja tímanum við eitthvað sem krafðist þolinmæði, líkt og Sudoku. „Áður leiddist mér Sudoku. Í fangelsinu varð ég þolinmóðari.“

Erdogan las sagnfræðirit og leysti krossgátur. Þá glímdi hún við spurningar úr inntökuprófi fyrir háskólanám í stærðfræði og eðlisfræði.

Sjálf hefur hún gefið út nokkrar bækur sem hafa hlotið lof gagnrýnenda, þeirra á meðal The City in Crimson Cloak, sem hefur verið þýdd á ensku. Erdogan segist hins vegar ekki vera að íhuga að setjast við ritstörf á meðan mál hennar er enn opið.

„Spurningin er alltaf þarna; hvað ef ég verð aftur send í fangelsi á meðan ég er að skrifa þessa bók? Hvað verður um bókina? Meira að segja þetta er fangelsi í sjálfu sér,“ segir Erdogan.

Erdogan faðmar móður sína. Hún sat 132 daga í fangelsi …
Erdogan faðmar móður sína. Hún sat 132 daga í fangelsi fyrir greinar sem hún skrifaði um ástandið í suðausturhluta Tyrklands, þar sem stjórnarherinn berst við bardagamenn PKK. AFP

Skuggi fangelsisins

Erdogan segist ekki munu nota reynslu sína í fangelsi í þeim verkum sem hún kann að skrifa í framtíðinni; hún vilji ekki „selja hana“. En hún viðurkennir að áfallið sem fylgdi fangelsisdvölinni muni hafa áhrif á skrif sín.

„Ég held að héðan í frá muni allt sem ég skrifa hafa skugga fangelsisins yfir sér. Það er óumflýjanlegt.“

Erdogan var handtekin í ágúst síðastliðnum ásamt vel þekktum málfræðingi, Necmiye Alpay, 70 ára, og öðrum starfsmönnum Ozgur Gundem.

Hún var ákærð fyrir þrjár greinar sem birtust síðasta sumar og fjölluðu um ástandið í suðausturhluta Tyrklands, þar sem stjórnarherinn berst við PKK, sem er á lista yfirvalda yfir hryðjuverkasamtök.

Erdogan hafði gert gys að ásökununum gegn sér en hún var m.a. sökuð um að taka upp málstað PKK.

Rithöfundurinn segist ósátt við þögn ýmissa tyrkneska fræðimanna á meðan hún var í fangelsi. Þeir neituðu að undirrita stuðningsyfirlýsingu við hana, sem Erdogan segir lýsa skammsýni.

„Ég er bara skáldsagnahöfundur. Ég er ekki á framlínu hins kúrdíska málstaðar,“ segir hún. „Þetta kerfi fangelsaði mig, þannig að þetta getur komið fyrir hvaða annan rithöfund sem er.“

Í apríl ganga Tyrkir til atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem eru …
Í apríl ganga Tyrkir til atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem eru sagðar munu færa forsetanum aukin völd. AFP

Líkt og að setja sig upp á móti Guði

Til stendur að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Tyrklandi í apríl um breytingar á stjórnarskránni, sem munu auka völd forsetans. Andstæðingar óttast að breytingarnar muni leiða til hálfgerðs einræðis.

„Lokatakmarkið er mjög skýrt,“ segir Erdogan. „Að sjálfsögðu verður niðurstaðan . Það er enginn annar valkostur.“

Erdogan segir Já-niðurstöðu munu festa í lög núverandi neyðarástand, sem komið var á í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Hún segir samfélagið nú þegar farið að venjast því.

„Við munum búa við 10 til 20 ára herforingjastjórn,“ segir hún. „Hin raunverulega ógn sem bíður Tyrklands er ekki sharía- heldur alræðisstjórn.“

Erdogan segist hafa áhyggjur af því að fólk hafi ekki kynnt sér hvað felst í stjórnarskrárbreytingunum og að valkostunum væri stillt upp þannig að það að vera á móti forsetanum væri eins og að vera á móti Guði.

„Ef þú segir Nei ertu djöflakenndur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert