Val á milli aftöku eða hungurs

AFP

Um 350 þúsund börn eru innikróuð í vesturhluta Mósúl og biðja mannúðarsamtökin Save the Children íraska hermenn og bandamenn þeirra að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja börnin og fjölskyldur þeirra. Farið er að bera á skorti á mat, vatni og lyfjum í borginni. Hart er barist um Mósúl, helsta vígi Ríkis íslams í Írak. 

Maurizio Crivallero, sem fer með málefni Íraks hjá samtökunum, biður herinn og bandamenn að standa vörð um skólabyggingar og sjúkrahús á leið sinni inn í borgina.

Hann varar við því að flótti er ekki mögulegt val flestra fjölskyldna en allir sem það reyna eiga á hættu að vera teknir af lífi af vígamönnum Ríkis íslams, leyniskyttum eða stíga á jarðsprengjur. 

„Þetta eru vægðarlausir valkostir fyrir börnin í vesturhluta Mósúl þessa dagana: Sprengjur, orrahríð og hungur ef þau verða áfram – eða aftökur og leyniskyttur ef þau reyna að flýja,“ segir Crivallero í yfirlýsingu frá samtökunum. Hann segir nauðsynlegt að koma upp öruggum flóttaleiðum fyrir almenna borgara eins skjótt og auðið er. 

Sameinuðu þjóðirnar leggja dag og nótt í að koma upp skýlum fyrir flóttafólk því vitað sé að flóttamannastraumurinn á bara eftir að aukast. „Við etjum kappi við klukkuna við að undirbúa neyðaraðstoð suður af Mósúl þar sem við getum tekið á móti fjölskyldum á flótta,“ segir Lise Grande, sem fer með mannúðarmál á vegum SÞ í Írak.

Frá Al-Agha búðunum.
Frá Al-Agha búðunum. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert