Mugabe styður Trump

Robert Mugabe hefur verið forseti Simbabve í tæp 30 ár. …
Robert Mugabe hefur verið forseti Simbabve í tæp 30 ár. Hann verður 93 ára gamall á morgun. Mynd/AFP

Robert Mugabe, forseti Simbabve, segist styðja stefnu Donald Trump Bandaríkjaforseta um að setja Bandaríkin fyrst enda séu „Bandaríkin fyrir Bandaríkjamenn“ og „Simbabve fyrir Simbabvemenn“.

Mugabe er elsti þjóðarleiðtoginn í Afríku en hann verður 93 ára á morgun. Í viðtali sem tekið var við hann í tilefni afmælisins hvatti hann fólk til að gefa Trump tækifæri til að sanna sig.

Árið 2001 beittu Bandaríkin Mugabe og bandamenn hans refsiaðgerðum en þeir voru ásakaðir um að hafa framið mannréttindabrot og hagrætt niðurstöðum kosninga. Refsiaðgerðirnar voru meðal annars ferðabann og kyrrsetningar á eignum Mugabe.

Í viðtalinu sagðist Mugabe ánægður með að Trump hefði unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en hann vonast til að Trump muni endurskoða refsiaðgerðir gegn Simbabve.

„Niðurstöður kosninganna komu mér á óvart en ég vildi heldur ekki að frú Clinton ynni. Ég vissi að hún myndi skella á okkur refsiaðgerðum.“

Í viðtalinu ítrekaði Mugabe einnig að hann væri ekki tilbúinn til að fara frá völdum en hann hefur verið forseti Simbabve frá árinu 1987 eða í tæp 30 ár.

„Meirihluta fólksins finnst að það sé enginn arftaki eða eftirmaður sem fyrir þeim er ásættanlegur, jafnásættanlegur og ég.“

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert