11 bænahús rýmd eftir sprengjuhótanir

Alls hafa borist 69 sprengjuhótanir vegna bænahúsa gyðinga í Bandaríkjunum …
Alls hafa borist 69 sprengjuhótanir vegna bænahúsa gyðinga í Bandaríkjunum frá því að Donald Trump tók við embætti forseta. AFP

Rýma þurfti 11 bænahús gyðinga í Bandaríkjunum í gær vegna sprengjuhótana. Töluvert hefur borið á því að bænahúsum gyðinga sé hótað frá því að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta í lok síðasta mánaðar. Alls hafa 69 slíkar sprengjuhótanir borist frá þeim tíma að því er AFP-fréttastofan hefur eftir samtökum gyðinga í Norður-Ameríku.  

Allar hótanirnar hafa hins vegar reynst vera gabb.

Bandaríska alríkislögreglan FBI og mannréttindaskrifstofa dómsmálaráðuneytisins eru nú með málið til skoðunar.

Bandarískir fjölmiðlar greindu einnig frá því að rúmlega 100 legsteinar í Chesed Shel Emeth, kirkjugarði gyðinga í St. Louis í Missouri, hefðu verið skemmdir nú um helgina. Er það mál nú til rannsóknar hjá lögreglu borgarinnar, sem skoðar nú m.a. myndbönd úr eftirlitsmyndavélum í nágrenni garðsins.

Hatursglæpir að ná sögulegum hæðum

Lögmannasamtökin Southern Poverty Law Center, sem fylgjast með öfgasamtökum í Bandaríkjunum, segja hatursglæpum fara fjölgandi og að þeir séu við það að ná sögulegum hæðum. Telja samtökin að tengsl séu á milli aukningar hatursglæpa og aukins styrks hægriöfgasamtaka í landinu, en þau eru m.a. talin hafa átt sinn þátt í kjöri Trump í embætti forseta.

Stjórn Trump hefur engu að síður fordæmt þessa síðustu atburði og segir hatur og hatursgæpi ekki eiga heima í þjóðfélagi sem sé byggt á loforðum um frelsi einstaklingsins.

„Forsetinn hefur tekið það skýrt fram að slíkar gjörðir eru óásættanlegar,“ hefur AFP-eftir einum starfsmanna forsetans.

Forsetadóttirin Ivanka Trump, sem er gyðingatrúar, var einnig fljót að fordæma sprengjuhótanirnar á Twitter.

„Bandaríkin eru þjóð sem byggir á hugmyndinni um umburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum. Við verðum að verja bænahús okkar og trúarmiðstöðvar,“ skrifaði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert