5 fórust er vél brotlenti á verslunarmiðstöð

Töluverðar skemmdir urðu á þeim hluta verslunarmiðstöðvarinnar þar sem flugvélin …
Töluverðar skemmdir urðu á þeim hluta verslunarmiðstöðvarinnar þar sem flugvélin brotlenti. Mikil mildi þykir að ekki varð manntjón á jörðu niðri. AFP

Fimm manns fórust þegar flugvél brot­lenti á versl­un­ar­miðstöð í Mel­bour­ne í Ástr­al­íu. Versl­un­ar­miðstöðin, sem er rétt við Essendon-flug­völl­inn, var ekki opin þegar slysið varð. Svart­an reyk lagði upp af flug­vél­inni.  

Fréttavefur BBC hefur eftir Stephen Leane, aðstoðarlögreglustjóra í Victoria-fylki, að svo virðist sem flugvélin hafi orðið fyrir „alvarlegri vélarbilun“ stuttu eftir flugtak.

„Á þessari stundu vitum við ekki til þess að fleiri hafi farist en þeir sem voru um borð í vélinni,“ sagði hann. „En þegar horft er yfir eldhafið er það ótrúleg heppni að enginn skuli hafa verið staddur fyrir aftan verslanirnar eða á bílastæðinu og að engir aðrir hafi svo mikið sem slasast.“ Vélin brotlenti um klukkustund áður en búðir í verslunarmiðstöðinni áttu að opna.

Reuters-fréttastofan hefur eftir vitnum að kviknað hafi í vélinni um leið og hún lenti.

Ástralskir fjölmiðlar segja fjóra Bandaríkjamenn hafa verið farþega um borð í vélinni, sem var á leið til Tasmaníu, og að a.m.k. tveir þeirra hafi verið á leið þangað í golfferð.

„Þetta er hryggilegur dagur,“ sagði Daniel Andrews, forsætisráðherra Victoria-fylkis. „Hópur fólks hefur farist í versta flugslysi sem orðið hefur í fylkinu í 30 ár.“

Ástralska samgönguslysanefndin rannsakar nú tildrög slyssins, en að sögn ástralskra fjölmiðla hafði flugmaðurinn áratuga reynslu og átti að baki flekklausan feril.

Vélin brotlenti rúmum klukkutíma áður en verslanir í verslunarmiðstöðinni áttu …
Vélin brotlenti rúmum klukkutíma áður en verslanir í verslunarmiðstöðinni áttu að opna. AFP
Lögreglumaður myndar eitt hjóla vélarinnar sem lenti á hraðbraut í …
Lögreglumaður myndar eitt hjóla vélarinnar sem lenti á hraðbraut í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert