Fordæmir hótanir gagnvart gyðingum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að þær hótanir sem miðstöðvum gyðinga hafa borist séu „hræðilegar“ og „sársaukafullar“ og hefur heitið því að brúa bil á milli fólks í landinu.

„Þetta ferðalag var þýðingarmikil áminning um hvers vegna við verðum að berjast gegn þröngsýni, skorti á umburðarlyndi og hatri í öllum þeim ljótu myndum sem þetta birtist,“ sagði Trump eftir að hann heimsótti þjóðarsafn sem hefur að geyma sögu og menningu svartra Bandaríkjamanna í Washington.

„Hótanir gagnvart gyðingum sem beint er gegn samfélagi gyðinga og miðstöðvum þeirra eru hræðilegar og sársaukafullar. Þær eru sorgleg áminning um vinnuna sem við verðum að inna af hendi til að útiloka hatur, fordóma og illsku,“ sagði hann.

Um síðustu helgi voru yfir 100 legsteinar skemmdir í kirkjugarði gyðinga í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum.

Þó nokkrar sprengjuhótanir bárust miðstöðvum gyðinga í gær. Í öll skiptin reyndist um gabb að ræða.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert