Margir skelkaðir eftir skothvelli

Lögregla stöðvaði för mannsins.
Lögregla stöðvaði för mannsins. AFP

„Það voru margir mjög skelkaðir þegar skothvellirnir heyrðust enda var þetta á miðri götu,“ segir Gísli Berg í samtali við mbl.is. Hann og eiginkona hans, Tinna Arnardóttir, eru í fríi í Barcelona og urðu vör við það þegar lögreglan elti uppi og skaut í átt að manni sem hafði stolið pallbíl fyrr í dag.

Lögreglan skaut í átt að pallbíl en fjöldinn allur af gashylkjum var á palli bílsins. Sænskur maður hafði stolið bílnum og keyrt honum á móti umferð á miklum hraða.

„Það byrjuðu mikil læti fyrir utan hótelherbergið okkar og þegar við fórum út á svalir voru svakalegir skothvellir,“ segir Gísli og bætir við að lætin hafi verið mikil:

„Hann hefur greinilega keyrt utan í aðra bíla. Þegar við fórum út þá var lögreglan að elta hann og þá heyrðum við skothvellina, enda var það nánast beint fyrir utan hjá okkur.“

Spurður hvort hjónin hafi orðið vör við geðshræringu segir Gísli að fólk hafi verið stressað fyrst en róast fljótt. „Fólk vissi ekki hvað var að gerast. Það kom fljótt fram að þetta hefði verið maður sem á við geðræn vandamál að stríða. Við það róaðist fólk en það voru ekki margir úti stuttu eftir að þetta gerðist,“ segir Gísli en lögreglan handsamaði manninn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert