Breti í sjálfsvígsárás í Mósúl

Jamal al-Harith.
Jamal al-Harith. Mynd sem Ríki íslams sendi af vígamanninum

Breskur liðsmaður vígasamtakanna Ríki íslams sem lést í sjálfsvígsárás í Mósúl í Írak nýverið er fyrrverandi fangi í fangabúðum Bandaríkjahers við Guantanamo flóa á Kúbu. Þetta staðfestir fjölskylda hans í viðtali við Times í dag en BBC birti í gær frétt um málið. 

Fyrir tveimur dögum birtu vígasamtökin mynd af Abu-Zakariya al-Britani sem var sagður hafa virkjað bílsprengju í herstöð Írakshers í Tal Gaysum, suðvestur af Mósúl. Bróðir Jamal al-Harith, Leon Jameson, staðfestir í viðtali við Times í dag að þetta sé bróðir hans. Hann segist þekkja bros hans á myndinni. 

Jamal al-Harith heitir réttu nafni Ronald Fiddler og er fimmtugur að aldri. Hann er frá Mnchester og var sendur til  Guantanamo árið 2002 og var haldið þar til ársins 2004. 

Stjórnvöld í Bretlandi hafa ekki staðfest að myndin sé af Jamal al-Harith en í talsmaður ríkisstjórnarinnar segir í samtali við AFP fréttastofuna að bresk yfirvöld hafi lengi ráðið fólki frá ferðalögum til Sýrlands og hluta Íraks. Bretland sé ekki með starfandi sendiráð í Sýrlandi lengur og mjög takmarkaða utanríkisþjónustu í Írak. Því sé gríðarlega erfitt að segja til um stöðu Breta á þessum svæðum.

Harith er ættaður frá Jamaíka og tók um íslamtrú á fullorðinsaldri. Hann var handtekinn á sínum tíma í Afganistan af talibönum vegna þess að hann er með breskt vegabréf. Eftir innrás Bandaríkjahers inn í Írak árið 2002 var hann sendur í fangabúðirnar á Kúbu. Þar var hann að eigin sögn beittur miklu harðræði. Þegar hann kom aftur til Bretlands árið 2004 var honum sleppt án ákæru.

Harith fór til Sýrlands í gegnum Tyrkland í apríl 2014, samkvæmt upplýsingum frá Ríki íslams. Ári síðar kom eiginkona hans, Shukee Begum, til Sýrlands ásamt fimm börnum þeirra hjóna. Að hennar sögn ætlaði hún að fá hann til þess að yfirgefa Ríki íslams en við komuna þangað var henni bannað að yfirgefa yfirráðasvæði Ríkis íslams. Henni tókst síðar að flýja með börnin til Bretlands að nýju, segir í frétt AFP.

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2004 er fjallað um mál Jamal al-Harith e Daily Mirror hafði daginn áður birt einkaviðtal við al-Harith en þar segist hann alls engin tengsl hafa haft við hryðjuverkamenn.

„Al-Harith var skírður Ronald Fiddler, foreldrar hans eru frá Jamaíku en hann snerist til íslam og skipti þá um nafn. Hann segir í viðtalinu í Daily Mirror að hann hafi oft hafa mátt una því að vera hlekkjaður í lengri tíma á meðan á dvölinni í Guantanamo stóð. Þá hafi bandarískir herlögreglumenn barið hann eftir að hann hafnaði lyfjagjöf með sprautu.

Al-Harith segir að Bandaríkjamenn hafi ítrekað niðurlægt strangtrúaða múslíma, sem haldið var föngnum í búðunum, með því að fá í heimsókn þangað vændiskonur sem síðan var falið að berhátta sig fyrir framan valda fanga. "Ég veit um tíu slík atvik. Svo virtist sem þeir beittu einkum unga menn þessum brögðum, það voru einkum menn sem vitað var að væru afar trúaðir sem lentu í þessu," sagði al-Harith.

„Mest áhersla var lögð á það í Guantanamo að veikja þig andlega. Barsmíðarnar voru aldrei eins slæmar og sálrænu pyntingarnar," sagði al-Harith. Nefnir hann sem dæmi að jafnan hafi verið skrúfað fyrir vatn þegar bænastundir múslíma runnu upp "til að við gætum ekki þvegið okkur í samræmi við reglur trúar okkar".

Al-Harith er frá Manchester og er fráskilinn, þriggja barna faðir. Hann segir í viðtalinu að aðstæður fanga í Guantanamo hafi almennt verið slæmar og að fangar hafi lítilla réttinda notið. "Þeir sögðu reyndar einmitt þetta: hér njótið þið engra réttinda," sagði al-Harith um fangaverðina bandarísku.

Al-Harith segist hafa flogið til Pakistans síðla árs 2001 í því skyni að nema fræði Kóransins. Síðan hafi hann ætlað að ferðast með flutningabíl til Tyrklands en bíllinn fór hins í gegnum Afganistan án þess að hann vissi að það stæði til. Al-Harith segir að við komuna til Afganistans hafi hann verið fangelsaður af talibönum sökum þess að hann hafði breskt vegabréf meðferðis. Seinna handtóku Bandaríkjamenn hann.

„Þegar Bandaríkjamennirnir yfirheyrðu mig spurðu þeir: hvers vegna ertu svo hreinn? Við erum búnir að grennslast fyrir um þig hjá Interpol og getum ekki einu sinni fundið sönnun þess að þú hafir verið sektaður um umferðarlagabrot um ævina," sagði al-Harith í viðtalinu. Ég svaraði: Það er af því að ég hef aldrei brotið neitt af mér um ævina,“ segir í fréttinni.

Jamal al-Harith fékk samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla greiddar háar bætur fyrir vistunina í Guantanamó-fangabúðunum. 

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert