Unnusti sekur um morð á rithöfundi

Helen Bailey var myrt á síðasta ári.
Helen Bailey var myrt á síðasta ári. Ljósmynd/Skjáskot af síðu BBC

Unnusti barnabókahöfundarins Helen Bailey sem byrlaði henni lyf og kæfði hana áður en hann fleygði líki hennar í forarþró hefur verið fundinn sekur um morð.

Ian Stewart, sem er 56 ára, hafði neitað því að hafa myrt Helen Bailey á heimili þeirra í Royston í Hertfordskíri á Englandi í apríl í fyrra í von um að komast yfir auðæfi hennar sem eru metin á 4 milljónir punda, eða um 550 milljónir króna, að því er BBC greindi frá.

Hann var dæmdur fyrir morð eftir sjö vikna réttarhöld.

Lögreglan segist ætla að rannsaka nánar dauða fyrrverandi eiginkonu Stewarts, Diane, sem lést árið 2010. Hún dó eftir að hafa fengið flogakast í garðinum við heimili þeirra í Bassingbourn í Cambridgeskíri. Rannsókn fór fram en lögreglan ætlar að hefja aðra rannsókn á dauða hennar.

Helen Bailey og Ian Stewart.
Helen Bailey og Ian Stewart. Ljósmynd/Skjáskot af síðu BBC

Lögreglan lýsti Ian Stewart sem „sjálfsdýrkanda“ sem væri „kaldlyndur“ og „útsmoginn“. Hann er sagður hafa blekkt hina 51 árs Bailey algjörlega þegar þau kynntust á netinu eftir að eiginmaður hennar dó árið 2011.

Að sögn saksóknara spilaði Stewart „langa leikinn“ til að geta erft auðæfi Bailey sem hún fékk eftir að hafa gefið út meira en 20 bækur, þar á meðal hinar vinsælu unglingabækur Electra Brown.

Stewart hafði í laumi byrlað unnustu sinni svefnlyfið zopiclone í margar vikur áður en hann kæfði hana með kodda, að sögn réttarmeinafræðings.

Dómur verður kveðinn upp yfir Stewart á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert