Áreitt út af gagnkynhneigð sinni

Candice Wiggins er mjög stolt af kvenleika sínum en kveðst …
Candice Wiggins er mjög stolt af kvenleika sínum en kveðst ekki hafa notið sannmælis í WNBA-körfuboltadeildinni.

Útlit mitt og leikstíll höfðu áhrif á spennuna. Leikmenn reyndu stöðugt að meiða mig vísvitandi. Ég hef aldrei heyrt T-orðið eins oft og fyrsta árið sem ég spilaði í WNBA. Skilaboðin voru skýr: Við viljum að þú vitir að okkur geðjast ekki að þér.“

Þetta sagði körfuboltakonan fyrrverandi Candice Wiggins í samtali við dagblaðið San Diego Union-Tribune í vikunni en hún segir farir sínar sannarlega ekki sléttar eftir átta ár í bandarísku atvinnudeildinni en Wiggins, sem er þrítug, lagði skóna á hilluna á síðasta ári.

Wiggins er ekki í nokkrum vafa um ástæðuna fyrir áreitinu: Hún er gagnkynhneigð. „Sú staðreynd að ég er gagnkynhneigð og ófeimin við að láta það í ljós mæltist hreint ekki vel fyrir. Ég myndi segja að 98% kvennanna í WNBA séu samkynhneigðar og ríkjandi siðir eru allsráðandi. Það giltu allt aðrar reglur um aðra leikmenn,“ segir Wiggins í viðtalinu.

Hún segir samanburðinn við karlmenn í íþróttinni óbærilegan og konurnar séu farnar að endurspegla þá. „Allt of mörgum finnst þú eiga að líta út eins og karlmaður og leika eins og karlmaður til að öðlast virðingu. Ég var á öndverðum meiði. Ég var stolt af því að vera kona og það rímaði ekki við kúltúrinn.“

Wiggins segir drauma sína alls ekki hafa ræst í WNBA – þvert á móti. Þegar hún hætti keppni fyrir ári var hún með tilboð frá liði sínu New York Liberty á borðinu en afréð að hafna því. „Mig langaði að spila í tvö ár enn í WNBA en þessi erfiða reynsla hafði haft mjög neikvæð áhrif á mig andlega. Ég var við það að bugast.“

Hún segir andrúmsloftið í deildinni niðurdrepandi og enginn sé að fylgjast með því. „Það er troðið á gildum okkar sem er ákaflega erfitt. Ég kunni ekki við kúltúrinn innan WNBA og án þess að segja of mikið þá var andrúmsloftið eitrað, eins og ég upplifði það.“

Wiggins upplýsir í viðtalinu að hún sé að leggja drög að endurminningum sem byggjast á dagbókarfærslum hennar meðan hún lék í WNBA. Þrátt fyrir allt kveðst hún ekki hugsa illa til nokkurs manns og mun ekki letja ungar stúlkur til að ganga til liðs við liðin í deildinni. „Ég á enga óvini og fyrirgef öllum sem gerðu á minn hlut. Þegar allt kemur til alls er ég sterkari fyrir vikið. Ég væri ekki eins hörð af mér og ég er ef ekki væri fyrir þessa lífsreynslu. Ég er hvorki að reyna að eyðileggja vonir neins né drauma um að leika í WNBA. Ég vil að allt gangi vel en á sama tíma er mikilvægt fyrir mig að segja satt og rétt frá.“

Þveröfug reynsla

Ummæli Wiggins hafa að vonum valið mikið umtal í Bandaríkjunum og víðar og sitt sýnist hverjum. WNBA-deildin sjálf hefur enn sem komið er ekki viljað tjá sig um málið og látið leikmönnum það eftir.

DeLisha Milton-Jones, leikjahæsti leikmaðurinn í sögu WNBA, kveðst vera gáttuð á ummælunum. „Ég þekki Candice sem ljúfa og klára unga konu. Ég vil ekki gera lítið úr reynslu hennar af deildinni en get fullvissað ykkur um að mín reynsla var þveröfug. WNBA hefur gefið svo mörgum okkar tækifæri til að láta drauminn rætast. Ég vona að Candice finni frið innra með sér og geti haldið áfram án þess að gera lítið úr því sem er ómetanlegt fyrir margar okkar.“

Monique Currie, sem leikið hefur í ellefu ár í WNBA, kemur líka af fjöllum. „Ég hef aldrei orðið vitni að áreiti eins og því sem Wiggins lýsir í viðtalinu. Það þýðir þó ekki að það hafi ekki átt sér stað. Ég er hins vegar stolt af að eiga aðild að deild sem virðir alla leikmenn, burtséð frá kynþætti, trú eða kynhneigð. Við erum öll ein stór fjölskylda sem elskar og virðir þá ágætu íþrótt körfubolta,“ bloggaði hún.

Samtök leikmanna í WNBA sendu líka frá sér yfirlýsingu, þar sem fram kemur að samtökin fagni fjölbreytninni og rói að því öllum árum að hver og einn leikmaður fái notið sín á sínum eigin forsendum. Ekki kemur þó fram hvort yfirgangssemi viðgangist í WNBA.

Þessu máli er án efa ekki lokið.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert