Stjórnvöld í Mexíkó hóta að svara í sömu mynt

Frá landamærum Mexíkó að Bandaríkjunum í Nuevo Laredo.
Frá landamærum Mexíkó að Bandaríkjunum í Nuevo Laredo. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó eru ósátt við hugmyndir yfirvalda í Bandaríkjunum um að leggja á einhliða skatt á mexíkóskar vörur í þeim tilgangi að fjármagna múr á milli landanna. Stjórnvöld í Mexíkó hóta því að bregðast við í sömu mynt.

Luis Videgaray, utanríkisráðherra Mexíkó, segir að ríkisstjórn landsins gæti lagt innflutningsgjald á valdar vörur frá þeim ríkjum Bandaríkjanna sem treysti á útflutning til Mexíkó, að því er segir á vef BBC.

Greint var frá því í gær, að Donald Trump Bandaríkjaforseti héti því að hefja framkvæmdir við veginn fljótlega. Í raun langt á undan áætlun. Ríkisstjórn Bandaríkjanna segist taka á móti tillögum að hönnun múrsins í næsta mánuði. 

Videgeray sagði í útvarpsviðtali í gær að Mexíkó trúi á frjáls viðskipti en að stjórnvöld yrðu að bregðast við ætli Bandaríkin sér að fjármagna múrinn með því að leggja sérstakan skatt á innfluttar vörur frá Mexíkó. 

„Það sem við getum ekki gert er að vera róleg með krosslagðar hendur,“ sagði ráðherrann. 

Hann segir að Mexíkó muni taka á þessu af alvöru en ekki líta á þetta sem einhvers konar hótun sem ekkert verði svo gert úr. 

Tolla- og landamæraeftirlit Bandaríkjanna mun í kringum 6. mars óska eftir tillögum frá fyrirtækjum um að hanna og byggja nokkrar frumgerðir sem muni koma til greina sem endanlegur múr. Stefnt er að því að þrengja listann fyrir 20. mars og þá verða verktakar beðnir um að setja saman kostnaðaráætlun. Svo er búist við ákvörðun og að samningar við verktaka verði gerðir um miðjan apríl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert