Lokaður inni í geymslu í 17 daga

Nuuk á Grænlandi. Maðurinn var veikburða eftir að hafa verið …
Nuuk á Grænlandi. Maðurinn var veikburða eftir að hafa verið lokaður inn í geymslu bæjarins í 17 daga. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heimilislaus maður í Nuuk á Grænlandi var læstur inni í geymslu í 17 daga. Grænlenski fréttavefurinn Sermitsiaq greinir frá þessu og segir kraftaverk að maðurinn, sem er á þrítugsaldri, hafi lifað dvölina af.

Maðurinn  fannst í geymslunni á þriðjudaginn í síðustu viku, en hann hafði einnig lokast inni í þessari sömu geymslu í miklu vetrarveðri í janúar. Í kjölfar þess ákváðu bæjaryfirvöld að geymslunum skyldi læst þannig að heimilislausir gætu ekki nýtt þær sem gistiskýli. Var fólkinu tilkynnt um lokanirnar, en geymslunum var ekki læst 3. febrúar líkt og til stóð og er talið að maðurinn hafi farið inn í geymslurnar á þeim tíma.

„Þetta er ljótt mál og við verðum að viðurkenna að við höfum ekki staðið okkur nógu vel,“ hefur vefurinn eftir Lars Møller-Sørensen, aðstoðarbæjarstjóra.

Hann var á lífi, hann gat staðið sjálfur á fætur en var að sjálfsögðu veikburða eftir dvölina,“ sagði Grethe Nielsen, yfirmaður velferðarsviðs bæjarins.

Farið var með manninn á sjúkrahús til aðhlynningar eftir dvölina í geymslunni og hefur yfirmaður í bæjarvinnunni verið leystur tímabundið frá störfum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert