Flóttabörn limlest og nauðgað

Í ljós kom að þrjú af hverjum fjögur börnum sem …
Í ljós kom að þrjú af hverjum fjögur börnum sem rætt var við í skýrslu Unicef höfðu á einhverjum tímapunkti ferðalagsins orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Unicef

Börn á flótta frá Líbýu til Ítalíu eru mjög oft fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis af hálfu smyglara og mansalshringja en þau greina sjaldnast frá ofbeldinu sem þau verða fyrir af ótta við að vera vísað úr landi eða handtekin. Mörg þeirra eru limlest, nauðgað og jafnvel drepin á flóttanum. Um 26 þúsund börn fóru þessa leið, flest ein á ferð, í fyrra.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, hefur gefið út nýja skýrslu A Deadly Journey for Children þar sem fjallað er um þær hörmungar sem þúsundir barna verða fyrir á hverju ári á flótta frá heimalandinu.  BBC fjallar um skýrsluna á fréttavef sínum í dag.

AFP

Samkvæmt Unicef skortir mat, vatn og læknisaðstoð í flóttamannamiðstöðvum í Líbýu en þar eru fjölmörg börn sem eru ein á ferð þar sem þau hafa annað hvort orðið viðskila við foreldra sína eða eiga enga.

Mjög hefur verið fjallað um hættuna sem fylgir flóttanum yfir Miðjarðarhafið en minna er rætt um hættuna sem þessi börn upplifa á landi, sérstaklega í Líbýu.

Samkvæmt BBC segja fórnarlömb ofbeldis skelfilegar sögur af flóttanum í skýrslunni. Sögur af þrælahaldi, ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi sem fjölmörg börn hafa orðið fyrir á flóttanum.

„Það sem sem skelfdi mig og starfsfólk Unicef [...] er hvað gerðist fyrir þau [börnin] á þessari leið,“ segir Justin Forsyth, aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna. „Mörg þessara barna hafa orðið fyrir limlestingum, nauðgunum, drepin á þessari leið,“ bætir hann við í samtali við BBC.

Ein þeirra sem segja sögu sína er Kamis, sem er níu ára gömul. Hún flúði frá Nígeríu ásamt móður sinni. Eftir að hafa farið yfir eyðimörk þar sem einn úr hópnum lést var þeim bjargað naumlega á hafi. Eftir það var þeim komið fyrir í miðstöð flóttafólks í bænum Sabratha í Líbýu.

„Þeir voru vanir að berja okkur á hverjum degi,“ segir Kamis í skýrslunni. „Það var ekkert vatn þar að fá. Staðurinn er ömurlegur. Það er ekkert þar.“

AFP

Unicef segir að stór hluti af ofbeldinu sé af engu tilefni og oft sé það kynferðislegt. Landamæri eru sérstaklega hættuleg þessum börnum þar sem kynferðislegt ofbeldi er gríðarlega algengt og skipulagt. Á þetta bæði við landamærastöðvar og eftirlitsstöðvar. Mjög margir ofbeldismannanna eru í einkennisbúningum og er það ein ástæðan fyrir því að börnin sem verða fyrir ofbeldinu tjá sig ekki um það sem þau verða fyrir.

Líbýa, land sem fjölmargir flóttamenn neyðast til þess að ferðast um, hefur áunnið sér það orðspor að vera miðpunktur misnotkunar. Um þriðjungur þeirra sem rætt var við í tenglsum við skýrsluna höfðu orðið fyrir misnotkun í Líbýu. Mikill meirihluta barnanna sem varð fyrir ofbeldinu vildu ekki svara því hverjir hefðu beitt þá ofbeldi.

Fregnir af nauðgunum og kynlífsþrælkun eru svo algengar að konur, sem þurfa að fara um Líbýu á flóttanum, eru farnar að taka getnaðarvarnir áður en þær leggja af stað til þess að koma í veg fyrir að verða þungaðar eftir slíkt ofbeldi. Eins eru þær með neyðarvarnir með sér. 

AFP

Fjallað er um 34 flóttamannamiðstöðvar í Líbýu í skýrslunni. Þar af eru þrjár lengst inni í eyðimörk landsins. Margar þeirra eru reknar af stjórnvöldum en Unicef segir að vopnaðar sveitir haldi einnig fjölda flóttamanna í óopinberum flóttamannabúðum.

Forsyth segir að samtökin hafi mestar áhyggjur af þeim, það er búðum sem eru reknar af vopnuðum sveitum. Þar eigi mikið ofbeldi sér stað og hjálparsamtök hafi mjög takmarkaðan aðgang að þeim.

Árið 2016 fóru yfir 180 þúsund flóttamenn sjóleiðina frá Líbýu til Ítalíu. Samkvæmt SÞ voru um 26 þúsund þeirra börn. Flest þeirra voru fylgdarlaus á flóttanum. Allt bendir til þess að fylgdarlausum börnum á flótta í Afríku sé að fjölga mikið en að sögn Forsyth eru margar ástæður þar að baki. Meðal annars skelfilegt ástand í Erítreu og Norður-Nígeríu. Eins hefur Gambía nýlega bæst í þann hóp. Helstu ástæðurnar fyrir því að börnin flýja eru pólitískar illdeilur, fátækt og von um betra líf. 

„Ég vildi fara yfir hafið,“ segir Issaa sem er 14 ára. „Leita að vinnu, vinna mikið og vinna mér inn pening svo ég geti aðstoðað fimm bræður mína sem eru heima.“

Nú tveimur og hálfu ári eftir að Issaa yfirgaf heimili sitt í Níger er hann einn í flóttamannamiðstöð í Líbýu. „Pabbi safnaði pening fyrir ferðalaginu, óskaði mér góðrar ferðar og leyfði mér að fara,“ segir hann. 

AFP

En til þess að komast í burtu þurfa flóttamennirnir að reiða sig á smyglara og oft mansalshringi. Ekki er langt síðan tugir líka fundust í flæðarmáli borgarinnar Zawia en þeim hafði skolað þar á land. 

Samkvæmt frétt BBC eru smyglararnir oft tengdir mansalshringjum. Fórnarlömbin eru síðan neydd í vændi til þess að greiða skuldir sínar fyrir flóttann. Enda er Líbýa helsti áfangastaður kvenna sem verið er að smygla til Evrópu þar sem þær eru seldar í vændi. 

Bætt við klukkan 12:26

Í ljós kom að þrjú af hverjum fjögur börnum sem rætt var við í skýrslu Unicef höfðu á einhverjum tímapunkti ferðalagsins orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðu að þau hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni – í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum.

Að minnsta kosti 4.579 manns létust á síðasta ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu, eða 1 af hverjum 40. Áætlað er að minnst 700 börn hafi verið meðal hinna látnu.

„Leiðin yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku til Evrópu er meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða í heiminum og sú hættulegasta fyrir konur og börn,“ segir Afshan Khan, svæðisstjóri Unicef sem samhæfir aðgerðir Unicef í flóttamannamálum í Evrópu.

„Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim.“ 

Nýleg könnun sem gerð var á högum barna innflytjenda og kvenna í Líbýu árið 2016 afhjúpar skelfilegt ofbeldi á þessari leið. Þegar könnunin var gerð sýndu gögnin að fjöldi fólks á flótta í Líbýu var 256.000. Þar af voru 30.803 konur og 23.102 börn. Þriðjungur barnanna var fylgdarlaus. Raunverulegar tölur eru hins vegar taldar vera í það minnsta þrisvar sinnum hærri.

Flest börnin og konurnar gáfu til kynna að þau hefðu borgað smyglurum í upphafi ferðarinnar og voru því mörg þeirra skuldbundin þeim. Þetta er samningur sem kallast „pay as you go“ sem setur þau í enn meiri hættu á að verða fyrir misnotkun, mannráni eða mansali. 

Konur og börn sögðu einnig frá harkalegum skilyrðum, þrengslum, skorti á næringarríkum mat og viðunandi aðbúnaði í skýlum í Líbýu sem rekin eru bæði af yfirvöldum þar í landi og herflokkum.

„Börn ættu ekki að vera neydd til þess að setja líf sitt í hendur smyglara vegna þess eins að það eru engin önnur úrræði,“ segir Khan hjá Unicef. „Það þarf að takast á við þetta mál á heimsvísu og í sameiningu þurfum við að finna öruggt kerfi, kerfi sem tryggir öryggi og réttindi barna á ferðinni, hvort sem um ræðir börn á flótta eða faraldsfæti.“

Aðgerðaáætlun Unicef

UNICEF leggur til að gripið sé tafarlaust til aðgerða á sex sviðum:

  1. Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
  2. Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
  3. Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum síðan lagalega stöðu.
  4. Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
  5. Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
  6. Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa. 

Unicef hvetur ríkisstjórnir heimsins og Evrópubandalagið til að styðja og tileinka sér þessa aðgerðaáætlun.

Umfjöllun BBC í heild

Skýrsla Unicef

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert