Hrottalegt dráp í dýragarði

Gustavito drapst eftir að hafa kvalist í fjóra sólarhringa.
Gustavito drapst eftir að hafa kvalist í fjóra sólarhringa. Mynd frá menningarmálaráðuneyti El Salvador

Hrottalegt dráp á flóðhestinum Gustavito í helsta dýragarði El Salvador hefur vakið mikla reiði meðal almennings í landinu enda aðdráttarafl Gustavito mikið. Ríkisstjórnin hefur lýst yfir sorg og reiði vegna málsins.

Ekki er vitað hverjir voru að verki en aðfararnótt fimmtudags laumuðust einhverjir inn í svæði Gustavito börðu hann og stungu í maga og snoppu með þeim afleiðingum að hann gat ekkert nærst og drapst á sunnudagskvöldið eftir að hafa liðið vítiskvalir í fjóra sólarhringa. Gustavito var 15 ára gamall og eftirlæti landsmanna.

Að sögn menningarmálaráðherra El Salvador, Silvia Regalado, reyndu starfsmenn dýragarðsins og dýralæknar allt til þess að reyna að bjarga lífi flóðhestsins án árangurs. 

Yfirmaður dýragarðsins, Mauricio Velasquez, segir að það sé ómögulegt að ímynda sér hvað fái fólk til þess að fremja slíkan glæp gagnvart varnarlausu dýri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert